Líst mjög vel á bátinn

Deila:

„Mér líst mjög vel á bátinn og sé ekki betur en smíðin sé ljómandi vel heppnuð. Ég er mjög sáttur og þetta lofar góðu. Við reiknum með að hægt verði að prufukeyra bátinn um næstu mánaðamót og þá kemur í ljós hvernig þetta gengur allt saman.“

Þetta segir Pétur Pétursson útgerðarmaður og eigandi nýs Bárðar SH, sem sjósettur var hjá Bredgaard bátasmiðjunni í Danmörku í byrjun mánaðarins. Bárður verður langstærsti plastbátur sem gerður hefur verið út til veiða við Ísland. Nýi báturinn ber 55 tonn í körum, sem er meira en tvöfalt meira en eldri Bárður ræður við. Auk þess að vera búinn til netaveiða, er hann með búnað til veiða í snurvoð og eykur það möguleika útgerðarinnar verulega til aukinna veiða frá því sem nú er.

„Svo þarf ég að fara að láta setja vinnslubúnað á dekki í Hanstholm í Danmörku. Það gæti tekið um tíu daga eða svo. Ég er því að vonast til að ná honum heim í endaðan júlí og hefja veiðar fljótlega eftir það,“ segir Pétur í samtali við Kvótann.

Deila: