Of lítið fannst af loðnu

Deila:

Bergmálsmælingar á stærð veiðistofns loðnu,kynþroska loðna sem hrygnir í vor, fóru fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni ásamt veiðiskipunum Aðalsteini Jónssyni og Berki dagana 4. – 15. janúar. Í heildina mældust aðeins um 214 þúsund tonn af kynþroska loðnu og er ljóst að magnið sem mældist er undir því sem þarf til að mælt verði með loðnuveiðum á yfirstandandi vertíð.

Lítilsháttar magn af kynþroska loðnu mældist út af Víkurál, en þar austur af reyndist einkum vera ókynþroska loðna, eða allt austur að Djúpál. Kynþroska loðnu var einkum að finna út af Strandagrunni og þaðan austur á Kolbeinseyjarhrygg en fullorðin loðna var ekki gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.

Rannsóknasvæðið var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Út af Vestfjörðum hamlaði hafís yfirferð skipanna talsvert en þar að auki urðu þar frátafir vegna veðurs.

Í september síðastliðinn fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins á víðáttumiklu svæði norður af Íslandi og yfir landgrunni Austur-Grænlands. Þá mældust aðeins 238 þúsund tonn af fullorðinni loðnu og um 11 milljarðar af ungloðnu og var út frá því ekki heldur mælt með upphafsaflamarki fyrir núverandi vertíð. Þann 10. desember fór veiðiskipið Heimaey í leiðangur til könnunar á útbreiðslu og magni loðnunnar og fann svipað magn og mælst hafði í september, einkum vestan Kolbeinseyjarhryggjar.

Hafrannsóknastofnun og útgerðir uppsjávarskipa munu fara yfir ofangreindar niðurstöður og framhald samstarfs um mælingar og vöktun á loðnustofninum næstu vikurnar.

 

Deila: