Lítil sókn í grásleppuna

94
Deila:

Lágt afurðaverð hefur dregið úr sókn í grásleppuveiðar í upphafi vertíðar. Kínverjar kaupa enga grásleppu og hrognaverð er lágt þar sem grásleppuveiðar við Ísland hafa ekki fengið alþjóðlega vottun. 65 bátar hafa landað grásleppu það sem af er vertíðinni en voru 82 á sama tíma í fyrra. En veiðin er góð og meira er komið á land en á þessum tíma á síðustu vertíð. „Það má segja það að hjá þessum 65 bátum sem eru byrjaðar veiðar að það hafi gengið mjög vel hjá þeim,” segir Örn Pálsson formaður Landssambands smábátaeigenda í samtali við ruv.is.

Lágt afurðaverð dregur úr sókninni

Hann segir ástandið í þjóðfélaginu draga eitthvað úr mönnum að hefja veiðar en lágt afurðaverð sé þó aðalástæðan. „Við höfum alltaf selt grásleppuna sjálfa til Kína. En svo fór nú nýja árið eins og það fór hjá þeim þannig að það var lítil sem engin neysla.”

Ekki samkeppnishæfir á meðan MSC vottun vantar

Kínverjar eigi því birgðir frá í fyrra og kaupi ekki grásleppu á meðan. Um fjórðungur verðmyndunar er af sölu á sjálfri grásleppunni en langmestu verðmætin eru í hrognunum. Og þar er mikil verðlækkun. „Því að við erum ekki með þessa MSC vottun. Þá erum við ekki nægjanlega samkeppnishæfir eins og Grænlendingar sem eru með hana.”

Vildu færri veiðidaga

Lagt er til að heildarveiðin í ár verði 4.646 tonn. Það er heldur minna en í fyrra og þar sem veiðar byrja vel, töldu smábátasjómenn rétt að fækka veiðidögum og hafa þá ekki fleiri en 40. En ráðuneytið ákvað að dagarnir yrðu 44. „Ég ætla að vona að það verði ekki til þess að við förum upp fyrir það sem við megum veiða. Því það er nú eitt af því sem er í kringum MSC vottunina, það er að við höldum okkur innan þeirra marka sem Hafrannsóknarstofnun leggur til.”

 

Deila: