Loðnan hrygnir á Húnaflóa

228
Deila:

Hrygningarloðna í Húnaflóa styður vísbendingar um aukna hrygningu loðnu undan Norðurlandi. Þetta segir leiðangursstjóri í rannsóknarleiðangri sem nú stendur yfir. Hann segir í samtali við ruv.is enga vísbendingu um vestangöngu loðnunnar.

Það er tæp vika síðan haldið var í leiðangur á uppsjávarskipinu Kap VE til að rannsaka loðnu við landið. Leiðangurinn hófst fyrir sunnan land og þaðan var haldið norður með Vesturlandi og austur að Eyjafirði. Þar var gert hlé á rannsóknum vegna veðurs.

Vilja fylgjast með framvindu loðnugöngunnar

Birki Bárðarson leiðangursstjóri, segir tilganginn með þessum túr að fylgja eftir stofnmati loðnu fyrr í vetur. „Við viljum fygjast með framvindu göngunnar og hvenig það gerir sig og hvort það sé eitthvað nýtt að gerast þar. Hvort að hugsanlega séu einhver merki um vestangöngu eða einhverja óvænta atburði.“ Þá sé verið að skoða ástand loðnunnar frá ýmsum hliðum, hrygningarsvæði og fæðuöflun.

Áhugavert að sjá hrygningaloðnu í Húnaflóa

Birkir segir þá ekki hafa séð mikið af loðnu, en þó nokkuð. Hrygningaloðna hafi verið undan Suðurlandi og út af Reykjanesi, en lítið hafi reynst á bak við fréttir af loðnu út af Faxaflóa. Þá sáu þeir nokkuð af hrygningaloðnu inni á Húnaflóa sem hann segir áhugavert. „Það má svosem búast við því og eins og við höfum talað um, virðist vera aukin hrygning undanfarið fyrir norðan land. Og þetta er til merkis um það.“

Engin ákveðin merki um vestangöngu

„En það er engin vestanganga á leiðinni og þú ert ekkert að sjá meira en menn áttu von á?“ 
„Við höfum ekki séð nein ákveðin merki um vestagöngu, nei. Og enn sem komið er þá er engin stór breyting á því sem við erum að sjá. Þó að það hafi verið ánægjulegt að sjá líf í Húnaflóanum,“ segir Birkir.

 

Deila: