Lögga með hendur í hári

135
Deila:

Maður vikunnar er Fáskrúðsfirðingur í húð og hár, en er samt gift Grindvíkingi. Hún er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og starfar nú sem verkefnastjóri hjá Austurbrú. Hún er stjórn Loðnuvinnslunnar og Fjarðabyggðarhafna.

Nafn:

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Hvaðan ertu?

Ég er Fáskrúðsfirðingur í húð og hár.

Fjölskylduhagir?

Ég er gift Grindvíkingi og eigum við tvo fjöruga íþróttastráka.

Hvar starfar þú núna?

Hvar á ég að byrja haha… ég starfa sem verkefnastjóri hjá Austurbrú í verkefnum sem tengjast atvinnu- og byggðaþróun. Ég sit í stjórn Loðnuvinnslunnar og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga sem fer með rúmalega 83% eignarhlut í Loðnuvinnslunni. Einnig sit ég í stjórn Fjarðabyggðarhafna.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég er fædd og uppalin í sjávarþorpi og þegar ég var komin með aldur til lá leiðin beint í frystihúsið. Ég flutti 16 ára í Höfuðborgina til að mennta mig sem hársnyrtir og lögreglumaður. Eftir að hafa starfað sem lögga með hendur í hári í nokkur ár og komin með fjölskyldu ákváðum við að flytja austur. Í janúar 2015 stóð ég dag einn við stofugluggann og virti fyrir mér skipatraffíkinni í firðinum. Það var rjómablíða, sólin skein, sjórinn var spegil sléttur og vertíð í fullum gangi. Duggið í bátunum bergmálaði í fjöllunum. Þá fann ég að ég yrði að taka þátt í þessu fjöri á ný. En mig langaði ekki endilega að byrja á sama stað og ég hætti á. Ég tók því ákvörðun um að fara í nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri, ákvörðun sem ég sé alls ekki eftir. Vorið 2019 útskrifaðist ég með B.Sc. í sjávarútvegsfræðum og hóf störf sem verkefnastjóri við Háskólann þar sem ég leiddi verkefnið Sjávarútvegsskóli unga fólksins ásamt fleirum.

Hvað er skemmtilegast við íslenskan sjávarútveg?

Sjávarútvegur nútímans er víðtækur og mjög spennandi atvinnugrein. Það er svo gaman að fylgjast með hvað tækninni fleygir hratt fram og mikil gróska í nýsköpun. Það hefur gríðarlega mikið breyst á stuttum tíma frá því að fiskurinn var bara hausinn og flökin þar til vakning varð á að komast sem næst fullnýtingu. Íslenskur sjávarútvegur stendur einnig frammi fyrir spennandi áskorunum eins og bættri umgengi við hafið, auknum rekjanleika frá veiðum til neytandans og að viðhalda sjálfbærum veiðum til framtíðar. Það hefur einnig verið spennandi að fylgjast með hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur staðið af sér margar áskoranir í tengslum við heimsfaraldurinn. Núna nýlega var gefinn út næst stærsti loðnukvóti sem gefinn hefur verið út og því má búast við miklum umsvifum vegna þess. Ekki eingöngu hjá fyrirtækjum í uppsjávarveiðum og vinnslu heldur líka í stoðfyrirtækjum og öðrum greinum.

En það erfiðasta?

Líkt og ég hef komið inná að þá er sjávarútvegurinn víðtækur og spennandi en á sama tíma getur hann verið óútreiknanlegur, það ber þá helst að nefna kvótann, olíuna og ýmsa erfiðleika á markaði sem tengjast greininni óbeint getur stundum haft miklar afleiðingar og ýmislegt fleira. Þá koma upp aðstæður þar sem þarf að taka erfiðar ákvarðanir og standa og falla með þeim.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Sennilega fyrsta skiptið sem ég sá Japana kreista hrogn úr loðnu beint uppí munninn á sér… þetta ver menning sem ég þekkti ekki haha.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Kláralega klíkan mín…Anna, Katrín og Sigrún….. að syngja með Sálinni eða Skímó uppá línu, það var oft mikið fjör

Hver eru áhugamál þín?

Ég myndi segja sjávarútvegur haha, en annars er það útivist af öllu tagi, fjallahjól, fjallgöngur, skíði og fótbolti. Svo auðviðtað fjölskyldan og vinir.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Hreindýr… svo held ég að ég gæti lifað á villtum fuglum og fiski. Þegar ég var yngri sagði ég gjarnan að mér fyndist skrýtnir fiskar bestir og þá átti ég við steinbít, löngu, keilu, flatfisk og bleikan fisk.

Hvert færir þú í draumfríið?

Maldíveyjar… klárt mál!

Deila: