Löndun til vinnslu skilyrði fyrir byggðakvóta

Deila:

Hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að áfram gildi þær reglur um byggðakóta að skylt sé að landaaflanum til vinnslu í sveitarfélaginu. Til Vesturbyggðar er úthlutað 85 tonnum af byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári, 70 tonn til Bíldudals og 15 tonnum til Brjánslækjar. Er þetta 15 tonnum minna en í síðustu úthlutun en þá var að auki 15 tonna úthlutun til Patreksfjarðar.

Byggðakvótanum verður skipt á milli þeirra báta í viðkomandi byggðarlagi sem uppfylla ákvæði laga í hlutfalli við landaðan afla þeirra. Leggja þarf fram á móti byggðakvótanum jafnmikinn kvóta og síðan að landa aflanum til vinnslu innan sveitarfélagsins. Í Vesturbyggð er ein fiskvinnsla Oddi hf á Patreksfirði.

Forsvarsmenn útgerða sem leggja upp í Brjánslækjarhöfn sendu inn bréf þar sem þeir mótmæla harðlega ákvörðunum bæjarstjórnar Vesturbyggðar og atvinnuráðs Vesturbyggða um ráðstöfun byggðakvóta undanfarin ár og segja að sveitarfélagið hafi komið í veg fyrir að byggðakvóti Brjánslækjar hafi verið nýttur. Halda þeir því fram að önnur sveitarfélög hafi fengið undanþágu frá ákvæðinu um vinnsluskyldu og benda á Skagafjörð. Deiluefnið er fiskverðið. Vinnsluskyldan leiðir til þess að útgerðin þarf að gera samning við fiskvinnslu og fiskverðið sem í boði er sé verðlagsráðsverð en ekki markaðsverð, sem sé miklu hærra.

„Niðurstaðan er sú að að sveitarstjórnarmenn í Vesturbyggð hafa tekið hagsmuni fiskvinnslunnar á Patreksfirði fram yfir hagsmuni íbúa gamla Barðastandahrepps og er það með öllu óásættanlegt.“ segir í bréfi útgerðanna.
Frétt af bb.is

Deila: