-->

LS fundar um ýsu með Hafró

Í kjölfar fundar LS og sjávarútvegsráðherra um ýsuvandræði krókaaflamarksbáta óskaði Hafrannsóknastofnun eftir fundi með forystu LS.  Beiðni um fundinn kom frá ráðherra og verður hann haldinn á morgun.
Frá þessu er sagt á heimasíðu Landssambands smábataeigenda. Á fundinum mun LS gera grein fyrir kröfu sinni að ýsukvótinn verði tafarlaust aukinn um 5.000 tonn og knýja á um svör hvort stofnunin muni endurskoða ráðgjöf um heildarafla í ýsu.
„Frá því LS fór af stað með kröfu sína hafa félagsmenn verið duglegir að hafa samband við skrifstofuna og greina frá ástandinu á miðunum.  Dæmi þar um er Georg Arnarson á Blíðu VE.  Georg lagði nokkrar línur á ýsuslóð við Eyjar, ekki var að sökum að spyrja – yfir 300 kg að meðaltali á balann.  Aðspurður um stærð ýsunnar sagði Georg hana vera blandaða – allar stærðir.
Þá hafa fréttir borist af togslóð hér vestan við landið þar sem yfirleitt er þorskur en nú flæðir ýsa yfir allt svæðið,“ segir á heimasíðunni.