Lúða í bjórhjúp

Deila:

Lúðan er einstakur fiskur, enda drottning fiskanna. Hún getur orðið risavaxin, en best til matar er hún miklu minni, 10-25 kílóa fiskur. Veiðar á lúðu eru bannaðar við Ísland og ber að sleppa lífvænni lúðu komi hún í veiðarfærin. Annars ber að landa lúðunni á fiskmarkað og skal andvirðið renna í sjóði sjávarútvegsins. Þess vegna er oftast hægt að fá lúðu í fiskbúðum. Þessa uppskrift fundum við á netinu en hún er ættuð frá Alaska. Einfaldur og góður réttur.

Innihald:

800g lúðuflök, roð- og beinlaus í fjórum jöfnum bitum
2 eggjahvítur
1 bolli hveiti
2 tsk. matarolía auk olíu til steikingar
1 bolli bjór
salt

Aðferðin:

Skerið lúðuna í fjóra jafna bita, ekki þykkari en 2 ½ sentímetra og þurrkið þá.

Þeytið eggjahvíturnar uns þær eru orðnar stífar og leggið til hliðar. Blandið saman hveiti, salti og olíu og hrærið bjórinn saman við þar til blandan er orðin mjúk. Bætið þá eggjahvítunni út og hrærið vel saman.

Hitið olíu á pönnu þannig að olían sé um einn sentímetrar að dýpt og stillið hitann á miðlung. Hjúpið lúðubitana í blöndunni og steikið þá á pönnunni í 8-12 mínútur á hvorri hlið eftir þykkt. Látið olíuna drjúpa af fiskbitunum og berið þá fram með tartarsósu og frönskum kartöflum.

Deila: