Lýsa vantrausti á skipstjórann

282
Deila:

Skipverjar togarans Júlíusar Geirmundssonar hafa lýst vantrausti á skipstjórann sem var á skipinu þegar hópsýking kom þar upp. Þeir krefjast þess að hann hætti störfum um borð í togaranum. Þetta segir í bréfi stíluðu á forsvarsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir skipið út. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV er það skrifað og sent af hálfu meirihluta áhafnarinnar sem starfar um borð í togaranum á móti þeirri áhöfn sem sýktist. Það er sú áhöfn sem skipstjórinn vinnur alla jafna með.

Vilja ekki að skipstjórinn starfi áfram á togaranum

Í bréfinu sem fréttastofa hefur undir höndum er lýst yfir vantrausti á hendur skipstjóranum og farið fram á að hann láti af störfum. Þar segir að framkoma hans og ákvarðanir hafi myndað undiröldu sem nú sé komin í dagsljósið.

Fréttastofa hefur ekki fengið staðfest hversu stór hluti skipverja stendur að bréfinu. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því.

Sjópróf hjá Héraðsdómi eftir helgi

Rannsókn á hópsýkingunni er nú á lokametrum hjá Lögreglunni á Vestfjörðum. Á föstudag úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness að sjópróf skyldi fara fram í málinu. Þá sagði skipstjórinn í yfirlýsingu að það væri þungbært að sitja undir ásökunum um að hafa viljandi stofnað áhöfninni í hættu eða neytt veika menn til að vinna.

Sjóprófið fer fram hjá Héraðsdómi Vestfjarða á mánudag. Þar fara vitnaleiðslur fram fyrir dómi um atburðarásina um borð í skipinu.

 

Deila: