Mætti til vinnu í móðurkviði

206
Deila:

Maður vikunnar í dag er frá Vestmannaeyjum og vinnur þar hjá fiskvinnslufyrirtæki. Hún nýtur þess að starfa með fólki í sjávarútvegi og elskar góðan krimma og nýtur þess að horfa á skemmtilegan fótbolta til dæmis.

Nafn:

Sara Rós Einarsdóttir.

Hvaðan ertu?

Fædd og uppalin í Vestmannaeyjum.

Fjölskylduhagir?

Ég er í sambúð með Jónasi Bergsteinssyni, þeim góða dreng og saman eigum við Bergstein Bóas og þrjá fjórfættlinga.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem skrifstofublók hjá Leo Seafood, sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum og sit þar í stjórn félagsins.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Mér lærðist snemma mikilvægi sjávarútvegsins í íslensku samfélagi og mætti fyrst til vinnu við sjávarútveg í móðurkviði. Mamma vann og vinnur enn sem fiskverkakona, pabbi vinnur á skrifstofunni í sama fyrirtæki og við systkinin vinnum þrjú hérna.  

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Við íslenskan sjávarútveg vinnur fjöldinn allur af fólki allstaðar af frá heiminum sem ég nýt þess að vinna með og hafa samskipti við.

En það erfiðasta?

Það eru krefjandi tímar framundan núna í íslenskum sjávarútvegi, breyting á markaðnum og óvissa sem maður er smeykur við. Því fylgir að taka þarf ýmsar erfiðar ákvarðanir og standa og falla með útkomunni.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Þegar að maður vinnur með og umgengst á hverjum degi svona skemmtilega klikkað fólk eins og ég geri þá er svo margt skrýtið sem gerist… flest af því er samt skemmtilega skrýtið. Sem dæmi þá var fyrir eina árshátíðina gert tónlistarmyndband þar sem að systkinin mín tvö brugðu sér í gervi Silvíu Nótt og Romario. Flestir viðstaddir voru sammála um ágæti atriðisins og ég læt hérna mynd fylgja ykkur til yndisauka og skemmtunar. Njótið vel.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er líklegast hún Petra eða BIG MAMA. Petra tók ekki bara að sér að smyrja ofan í helminginn af samstarfsfélögunum heldur var henni annt um hag okkar og manni fannst maður heppin að hafa hana í sínu liði. Til að gefa ykkur gleggri mynd af henni Petru þá er hún hætt að vinna en mætir ennþá hingað niður eftir með smurt nesti og hugsar um okkur.


Hver eru áhugamál þín?

Ég elska góðan krimma og nýt þess að horfa á skemmtilegan fótbolta til dæmis.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég væri til í að grilla alla daga alltaf (eða sko biðja kærastann um að gera það..).

Annars er ég er alin upp við svona „gamalla manna“ mat og þó ég hafi ekki alltaf kunnað að meta það í uppvextinum að fá bjúgu, hangikjöt og slátur á meðan að vinir mínir voru að borða pasta, pítsur og hamborgara þá finnst mér gamalla manna matur eins og soðinn fiskur, fiskur í raspi og raspaðar kótilettur herramanns matur í dag.


Hvert færir þú í drauma fríið?

Við Jónas stefnum á að fara í Evrópureisu í þrítugs afmælisgjöf, það hefur lengi verið á óskalistanum.

Deila: