Makrílkvótinn aukinn í 140.000 tonn

Deila:

Samkvæmt reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er leyfilegur heildarafli í makríl 2019 alls 140.240 tonn.  Til úthlutunar á grundvelli hlutdeilda  eru 127.307 tonn. Þá verða 7.433 tonn boðin á skiptimarkaði síðar og 4.000 tonn verða boðin  handfærabátum gegn gjaldi skv. sérstökum reglum. Þá eru 1.500 tonn framseld til rússneskra skipa skv.  tvíhliðasamningi þjóðanna.
Á grundvelli reglugerðarinnar hefur Fiskistofa í dag úthlutað til bráðabirgða hlutdeildum í makríl og 80% aflamarks 2019 í samræmi við hlutdeildasetninguna.
Öllum hlutdeildum í makríl hefur verið úthlutað á skip á grundvelli veiðireynslu. Sérstaklega er bent er á að nokkur fjöldi skipa sem er ekki með gild veiðileyfi fær hlutdeildir.  Í þeim tilvikum er aflamarki ekki úthlutað á skipin. Útgerðir þeirra fá leiðbeiningu frá Fiskistofu um  hvaða valkosti þau eiga til að  tryggja úthlutun aflamarks á grundvelli hlutdeilda þegar lokaúthlutun aflamarks fer fram.
Athygli er vakin á að ekki er heimilt að millifæra hlutdeildir eða aflamark í makríl fyrr en endanleg úthlutun hefur farið fram.

Útgerðir eru hvattar til að kynna sér forsendur úthlutunarinnar.

Frestur til að koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu vegna hennar er til 10. júlí 2019.

Fiskistofa mun eigi síðar en 10. ágúst 2019 senda útgerðum skipanna tilkynningar um endanlega aflahlutdeild skipa þeirra í makríl.

Hér að neðan má sjá aflastöðulista fyrir makríl þar sem fram kemur 80% úthlutunin á hvert skip ásamt flutningi skv. reglugerðinni á ónýttum aflaheimildum úr gamla pottakerfinu á fyrra ári. Þær falla undir dálkinn “Sérstakar úthlutanir”. Dálkurinn sem merktur er Fl (= flokkur) vísar til útgerðarflokks skipanna:  A = aflamarksskip, K= krókaaflamarksbátur, -12 = strandveiðibátur.

Aflastöðulisti makríll 2019 

Hér  er krækja í gagnlegar upplýsingar fyrir útgerðir um makríl veiðar og veiðiheimildir fram til þessa:

Heildarupplýsingar um makrílafla íslenskra skipa, úthlutun og millifærslur 1996 til 2018 

A- og B-flokkur aflahlutdeilda í makríl

Aflahlutdeild í makríl skiptist í tvo flokka, A- og B-flokk.

  • Í A-flokki er hlutdeild úthlutað á grundvelli veiðireynslu með öðrum veiðar­færum en línu og handfærum.
  • Í B-flokki er hlutdeild úthlutað á grundvelli veiðireynslu með línu og handfærum.

Listi yfir skiptingu hlutdeilda í makríl og skiptingu skipa í  A- og B-flokk

Athygli er vakin á því að aflamark einstakra skipa í makríl finnst þegar farið er í gegnum “Finna skip” á forsíðu vefjarins og valið er “Deilistofnar aflamark” undir “Meiri upplýsingar”.

Á næstu dögum er von er á  merkingu á síðunni “Um skip” þar sem skipting hvers skips í A- eða B-flokk kemur fram þegar við á.

Sérstök úthlutun í makríl til handfærabáta gegn gjaldi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið  hefur gefið út reglugerð sem heimilar að úthluta allt að 4.000 tonnum af viðbótaraflaheimildum í makríl ár hvert til skipa í B-flokki gegn greiðslu gjalds. Úthluta skal allt að 35 tonnum í senn. Eftir 15. september skal úthluta til skipa í A-flokki því sem eftir er gegn greiðslu gjalds.

Athygli er vakin á að eingöngu bátar í  B-flokki geta sótt um úthlutun af þessu tagi.  Þá er ekki hægt að sækja um úthlutun fyrr en viðkomandi bátur hefur nýtt 80% af því aflamarki sem hann fékk úthlutað á grundvelli hlutdeildar.

Fiskistofa auglýsir síðar nánari  útlistun á hvernig staðið verður að þessari viðbótarúthlutun.

 

Deila: