Makríll og síld til Neskaupstaðar

113
Deila:

Klukkan átta í morgun kom Margrét EA með um 250 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar og þar með er ný vertíð hafin. Tilgangurinn með veiðiferðinni var að sækja afla svo unnt væri að reyna nýjan og breyttan búnað í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þar er búið að setja upp nýjan vigtunarbúnað sem nú hefur verið löggiltur og eins hafa verið gerðar nokkrar endurbætur á vinnsluferlinu. Til dæmis má geta þess að búið er að setja upp tvær nýjar alsjálfvirkar Baader flökunarvélar.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Guðmund Þ. Jónsson skipstjóra á Margréti og spurði fyrst hvar aflinn hefði fengist. „Við fórum ekkert langt. Við fengum þetta úti í kantinum á Berufjarðarálshorni og á Papagrunni. Það var hálfgerð bræla í gær þegar við vorum að veiðum. Makríllinn er að koma þarna en hann er mjög blandaður síld. Um 70% af aflanum hjá okkur er síld. Þetta var svona prufutúr, það þurfti fisk til að prófa búnað í fiskiðjuverinu og ég reikna með að löndun hefjist nú um hádegi. Ég er mjög bjartsýnn hvað varðar vertíðina, ég held að þetta verði fínasta makrílvertíð,“ segir Guðmundur.

Gert er ráð fyrir að Síldarvinnsluskipin haldi til veiða um helgina en áformað er að vertíðin hefjist fyrir alvöru hjá Síldarvinnslunni 1. júlí.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

Deila: