Makríllinn kærkominn

Deila:

,,Það er kærkomið að makrílveiðin hefur verið góð og hér hefur verið mikið að gera frá því að Venus NS kom með fyrsta makrílaflann til vinnslu. Það kemur sér vel fyrir byggðarlög eins og þetta, ekki síst eftir að loðnuvertíðin brást algjörlega.“

Þetta segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði í samtali á heimasíðu félagsins, en makrílvertíðin hófst formlega á staðnum eftir að Venus kom þangað 12. júlí sl. með fyrsta makrílafla sumarsins.

,,Það er búin að vera nokkuð góð samfella í vinnslunni hjá okkur. Við fórum rólega af stað og höfum notað tímann, þegar hráefni hefur skort, til þrifa á búnaði. Hér er annars unnið á vöktum allan sólarhringinn og það hentar okkur mjög vel að skipin komi með 600 til 700 tonna farma,“ segir Magnús Róbertsson en að hans sögn er makríllinn nú stærri og betri en í fyrra. Rúmlega 100 manns vinna við vinnsluna í uppsjávarfrystihúsinu.

Makrílveiðin hefur verið jöfn og góð upp á síðkastið og eru skipin nú að veiðum mun austar en þau voru til að byrja með. Fyrir vikið er mun styttra frá Vopnafirði á miðin en var t.a.m. í síðustu viku. Ef að líkum lætur ætti makríllinn að duga vinnslunni fram í lok september eða byrjun október en vinnsla á síld tekur þá við.

 

 

Deila: