Makrílvertíð að hefjast hjá Síldarvinnslunni

Deila:

Nú er makrílvertíðin að hefjast hjá Síldarvinnslunni en gert hefur verið ráð fyrir að vinnsla á makrílnum hæfist 20. júlí og er ljóst að það mun standast. Fullráðið er fyrir vertíðina í fiskiðjuverið í Neskaupstað, en þar verður unnið á þrískiptum vöktum. Fjögur skip munu  landa afla sínum til vinnslu í fiskiðjuverinu og eru það Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í fiskiðjuverinu hefur undirbúningur vertíðarinnar staðið um hríð og er þar allt tilbúið. Í dag fer fram nýliðafræðsla en hluti starfsfólksins hefur ekki starfað við fiskvinnslu áður.

Margrét hóf makrílveiðar á miðvikudag og er væntanleg til Neskaupstaðar í fyrramálið með 840 tonn. Birkir Hreinsson, skipstjóri á Margréti, segir að þessa fyrsta veiðiferð vertíðarinnar hafi gengið vel. „Við tókum fyrsta holið á miðvikudagsmorgun suður af Vestmannaeyjum og fengum þá 300 tonn. Næstu þrjú hol voru tekin á sömu slóðum og þau gáfu miklu minna eða 80, 110 og síðan einungis 20 tonn. Þá færðum við okkur austar og tókum tvö hol utan í Kötlugrunni og upp í kantinn. Þá fengum við fyrst 190 tonn eftir að hafa togað í tvo tíma og þrjú korter og síðan 120 tonn. Segja má að þessi fyrsta veiðiferð makrílvertíðarinnar hafi blessast vel og hér um borð eru allir afskaplega ánægðir með að vera komnir á sjóinn aftur. Við komum til Akureyrar að lokinni kolmunnaveiði hinn 14. maí og síðan hefur skipið legið. Það var því löng bið eftir að komast til veiða á ný. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hve mikill makríll er á ferðinni við landið. Hann blossar upp á tilteknu svæði og svo hverfur hann – eina stundina er mokveiði, en lítið að hafa þá næstu. Svona er þetta bara,“ segir Birkir.

 

Beitir hóf veiðar í gærmorgun og Börkur mun hefja veiðar í dag. Bjarni Ólafsson er að verða klár til að halda til veiða.

 

Deila: