Makrílvertíð í fullum gangi

111
Deila:

Síðustu dagana hefur makrílveiðin glæðst og umsvifin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eru mikil. Á makrílvertíð er öll áhersla lögð á manneldisvinnslu. Það sem af er hefur stór makríll borist að landi og í honum hefur verið töluverð áta. Síðustu sólarhringa hafa skipin þó verið að fá makríl sem vigtar minna en 500 grömm. Makríllinn hefur verið unninn með ýmsum hætti; mest hefur fiskurinn verið hausaður og frystur, en einnig hefur verið heilfryst og flakað.

Í fiskiðjuverinu er unnið á vöktum og eru vaktirnar þrjár. Um 25 starfsmenn eru á hverri vakt auk verkstjóra og iðnaðarmanna. Gengnar eru 12 tíma vaktir og í fullum vaktamánuði þegar hráefnisöflun er stöðug vinnur hver starfsmaður á um 20 vöktum. Hér er um að ræða mikla vinnu en tekjurnar eru góðar. Reiknað er með að makrílvertíð standi fram undir miðjan septembermánuð en þá er gert ráð fyrir að veiðar og vinnsla hefjist á norsk- íslenskri síld þannig að vaktavinnu í fiskiðjuverinu ætti ekki að ljúka fyrr en í októberlok.

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir að ágætlega hafi gengið að ráða starfsfólk fyrir vertíðina sem hófst í byrjun júlí. Nú þurfi hins vegar að ráða fólk til starfa frá miðjum ágúst, þegar skólafólk hverfur af vettvangi, en þá bregði svo við að fólk sýni störfunum lítinn áhuga. Sárafáar umsóknir hafi borist og hafi hann verulegar áhyggjur af stöðu mála. „Ég hélt að það yrði ekki erfitt að manna þessi störf í því atvinnuástandi sem ríkir á landinu, en einhverra hluta vegna virðast þau ekki vera áhugaverð,“ segir Hákon í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Makríll unninn í fiskiðjuverinu. Ljósm. Hákon Ernuson

 

Deila: