-->

Mannlaus fiskilest

Miklar breytingar eru að ganga yfir á fiskiskipastóli HB Granda.  Í fyrra komu tvö ný uppsjávarveiðiskip í flotann og þrír nýir ísfisktogarar munu koma hver á fætur öðrum frá og með haustinu. Mestu breytingarnar í togurunum frá því sem nú er er mannlaus fiskilest.
„Þetta er búið að vera alveg feikilega skemmtilegt verkefni sem ég er mjög stoltur af og þakklátur fyrir að fá að vera með í því. Mjög ánægjulegt er hve vel uppsjávarskipin tvö sem komu í flotann í fyrra hafa reynst. Annað þeirra kom til landsins í maí í fyrra og hitt í desember. Það er því komin góð reynsla á bæði skipin og þau eru að reynast alveg sérlega vel. Fyrsti ísfisktogarinn kemur til landsins í haust og þá tekur við að setja í hann vinnslulínu og karaflutningakerfi og við vonumst til að hann geti komist til veiða í lok ársins og hinir á næsta ári. Uppsjávarskipin eru systurskip og togararnir þrír eru sömuleiðis alveg eins. Þetta er mikið hagræði í rekstri fyrir utan að það verður algjör umbylting á vinnsluumhverfi í nýju ísfisktogurunum miðað við þá gömlu.“ Svo segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í samtali við nýjustu Sóknarfæri í sjávarútvegi.
Félagið fór sitthvora leiðina í kaupum á þessum fimm nýju skipum. Hvað uppsjávarskipin varðar voru þau fullhönnuð þegar samið var við tyrknesku skipasmíðastöðina Celiktrans um smíði á þeim. Búið var að afhenda eitt skip eftir sömu teikningu og annað var í smíðum. HB Grandi var því að taka skip í seríu númer þrjú og fjögur. Hin tvö skipin, sem smíðuð voru eftir sömu teikningu eru eru fyrir á Íslandi. Þau voru keypt af Norðmönnum, annað notað en hitt meðan það var í smíðum. Þetta eru Sigurður VE og Börkur NK.
„Þegar kom að því að huga að smíði á nýjum ísfisktogurum létum það spyrjast út og þá kom í ljós að nánast engin framþróun hafði átt sér stað frá því skuttogararnir byrjuðu að koma hér upp úr 1970. Það fyrsta sem okkur var sýnt var nánast eins og teikning af Ottó N. Þorlákssyni. Við vildum ekki fara að smíða ný skip eins og rúmleg 40 ára gömul skip sem sem við áttum. Við vildum sjá einhverjar framfarir og einhvern tilgang með endurnýjuninni. Það er lengi hægt að halda gömlum skipum úti með góðu viðhaldi eins og verið hefur hér. Gömlu togararnir okkar hafa skilað alveg ótrúlegum afla í land og það gæti eflaust haldið áfram með góðu viðhaldi.

Model af Engey, sem er einn hinna þriggja nýju ísfisktogara HB Granda.

Model af Engey, sem er einn hinna þriggja nýju ísfisktogara HB Granda.

En við vildum sjá framfarir, bæði í aðbúnaði áhafnar og meðferð afla. Því var farið út í algjörlega nýja hönnun á skipum, sem reyndar var aðeins farin af stað. Við erum að fara í nýja hönnun á skrokk og nýjung í vinnslunni, sem þó er komin reynsla á. Við setjum í þá vinnsludekk eins og er í Málmey, sem  gefur möguleika á að vera með íslausan fisk. Við ætlum hins vegar að byrja að vera með ís og sjáum hvert það leiðir okkur. Annað sem er alger nýjung og hefur ekki verið áður í skipi svo vitað sé, en það er karaflutningakerfi. Fiskurinn verður settur í körin á vinnsludekkinu og sjálfvirk ísskömmtun í þau þar. Þar verður vinnustöð, sem körin koma sjálfkrafa tóm inn og fara sjálfkrafa full af ís og fiski niður í lest, þar sem kerfið raðar þeim upp. Lestin verður því mannlaus og þar með hverfa þau störf sem eru erfiðust og mesta slysahættan er. Það verður gífurleg framför í starfsaðstöðu og meðferð afla. Þá verður löndun sömuleiðis sjálfvirk,“ segir Vilhjálmur.
Viðtalið má sjá í heild í Sóknarfærum á slóðinni https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutvegur_3tbl_2016

 

Attachments

Comments are closed.