-->

Marel dregur úr kostnaði en tap varð á fyrsta ársfjórðungi

„Tekjur Marel á fyrsta ársfjórðungi námu 155 milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður nam 4,6 milljónum evra sem er ekki í samræmi við getu félagsins. Áætlun okkar um skýrari rekstraráherslur (e. Simpler, smarter and faster) var hleypt af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun. Á fyrsta ársfjórðungi höfum við náð þeim áfanga að draga úr árlegum kostnaði sem nemur 3,6 milljónum evra,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels í frétt um afkomu Marels á fyrsta fjórðungi þessa árs. Tap varð á rekstrinum nú en hagnaður á sama tíma í fyrra.
„Við tökum ákveðin skref í þá átt að samþætta einingar og hámarka framleiðslukerfið með það að leiðarljósi að gera fyrirtækið skilvirkara. Stefna Marel er skýr og markaðsstaðan sterk en við þurfum að aðlaga reksturinn betur að stefnu félagsins til að ná arðsemi í samræmi við samkeppnisstöðu.
Í kjúklingaiðnaði kynnti Marel til leiks tvær vel heppnaðar lausnir, RoboBatcher og SensorX SmartSort. Á sama tíma erum við spennt fyrir FleXicut sem búast má við að valdi straumhvörfum í hvítfiskvinnslu,“ segir Árni Oddur ennfremur.
Eftirfarandi lykiltölur eru birtar í fréttinni.
Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2014 námu 154,8 milljónum evra [Q1 2013: 158 milljónir evra].
EBITDA, leiðrétt fyrir kostnaði vegna hagræðingaraðgerða var 11,6 milljónir evra, sem er 7,5% af tekjum.
EBITDA var 8,1 milljón evra sem er 5,2% af tekjum [Q1 2013: 16,9 milljónir evra].
Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 4,6 milljónir evra, sem er 3% af tekjum.
EBIT var 1.0 milljón evra sem er 0,7% af tekjum. [Q1 2013: 10,3 milljónir evra].
Tap fyrsta ársfjórðungs 2014 nam 1,9 milljónum evra samanborið við 5,7 milljóna evra hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2013.
Hagnaður á hlut var neikvæður um 0,25 evru sent [Q1 2013: 0,78 evru sent á hlut].
Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 19,4 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2014. [Q1 2013: 17,2 milljónir evra].
Nettó vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 208,4 milljónum evra [Q1 2013: 239,3 milljónir evra].
Pantanabók stóð í 138,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2014 samanborið við 132,4 milljónir evra í upphafi ársins [Q1 2013: 151,1 milljón evra].
„Sala á stöðluðum lausnum og tækjum jókst á milli ára á meðan markaður fyrir stærri verkefni hefur enn ekki tekið við sér. Rekstrarhagnaður á starfsemi Marel í kjúklingaiðnaði var lægri en venjulega á fyrsta ársfjórðungi sem rekja má til óhagræðis í framleiðslu og verkefna sem voru tekin við erfiðar markaðsaðstæður á síðasta ári. Búast má við að kjúklingaiðnaðurinn muni skila bættri arðsemi í öðrum ársfjórðungi byggt á stöðu pantanabókar.
Áætlun um skýrari rekstraráherslur (e. simpler, smarter and faster) var hleypt af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun. Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20-25 milljónir evra. Nú þegar á fyrsta ársfjórðungi hefur tekist að minnka árlegan kostnað um 3,6 milljónir evra.
Afkoma fyrsta ársfjórðungs er einnig lituð af áhrifum nokkurra einskiptisliða sem samtals nema um 2,4 milljónum evra. Sá kostnaður eru ekki liður í hagræðingaráætluninni og er þar af leiðandi ekki bókaður sem einskiptiskostnaður,“ segir ennfremur í fréttinni.