-->

Markaðsátak fyrir íslenskar sjávarafurðir í undirbúningi | Helga Thors, markaðsstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

„Neytendur eru sífellt að verða meðvitaðri um nauðsyn þess að þekkja uppruna matvæla, framleiðsluaðferðir, notkun aukaefna, næringargildi og svo framvegis,“ segir Helga Thors. „En til að þetta gerist þurfum við að segja neytendum söguna að baki íslenskum sjávarafurðum. Og þá komum við til með að nota þær stoðir sem við þekkjum, t.d. ábyrgar fiskveiðar, hreina hafið, gæði og ferskleika, margra ára þekkingu í veiðum og vinnslu, stuttar flutningaleiðir, öflug nýsköpun, sjálfbæra nýtingu fiskistofna og þannig má áfram telja. Skilaboðin þurfa að vera einföld og skýr og ná eyrum neytenda.“

Á síðasta ári tók Helga Thors við starfi markaðsstjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Starfið segir hún enn í mótun en í aðalatriðum er hugmyndin sú að greinin taki frumkvæði að því að markaðssetja íslenskan fisk á erlendum mörkuðum. Á síðustu mánuðum hefur Helga ásamt öðrum starfsmönnum SFS lagt línur um þetta starf, m.a. með könnunum meðal fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem horft er til nýrra tækifæra á mörkuðum. Umræða hefur verið innan raða SFS um landsmerki fyrir íslenskar sjávarafurðir sem yrði liður í skilaboðum á erlendum mörkuðum sem Helga segir skýrast á komandi mánuðum. Útfærsla á merki og öðrum áherslum í skilaboðum til neytenda sé í vinnslu þessar vikurnar.

„Óháð okkar starfi hjá SFS verður eftir sem áður bein sala afurða og markaðssetning þeirra innan sölufyrirtækjanna sem flest eiga aðild að SFS. Markmiðið er hins vegar að styðja þeirra starf með því að byggja enn frekar undir ímynd íslenskra sjávarafurða á mörkuðunum. Sölufyrirtækin halda því áfram á sömu braut og Íslandsstofa mun á sama hátt einnig vinna að þessu starfi með okkur. Markaðsmál eru eðli máls samkvæmt verkefni sem mjög margir koma að, enda greinin stór og víðfeðm. Þess vegna höfum við tekið okkur tíma í að móta verkefnið og samræma hlutverk þeirra sem að því koma, meta hvar þörfin helst liggur og hvað við höfum tök á að gera. Liður í þessu hefur verið að fara á milli fyrirtækja með kannanir til að meta áhuga þeirra og tækifæri sem þau sjá út frá sinni vöruþróun og framleiðslu. Síðan þurfum við líka að ljúka útfærslunni á fjármögnun verkefnisins í heild en það má segja að við séum á góðri leið í samræmi við það umboð sem aðalfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi samþykkti á síðasta ári,“ segir Helga.

Vottunin mikilvæg stoð að byggja á

Í kjölfar yfirlýsingar um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga árið 2007 var tekið í notkun upprunamerki fyrir íslenskt sjávarfang, Iceland Responsible Fisheries. Tilgangur þess er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að íslenskar sjávarafurðir eigi uppruna sinn í vottun um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Upprunamerkið má nota á íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu. Umræða hefur verið innan SFS um að við hlið þess verði til landsmerki fyrir íslenskar sjávarafurðir sem enn frekar styðji ímynd þeirra.

„Vottunin er án nokkurs efa mjög mikilvæg í þessari heildarmynd og við munum halda henni mjög á lofti í öllu okkar markaðsstarfi. Jafnframt erum við að skoða hvort nýtt landsmerki verði tekið upp,“ segir Helga og undirstrikar að innan greinarinnar sé verulegur áhugi á aukinni ímyndaruppbyggingu á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir.

„Umræða um þessar áherslur hefur staðið í nokkurn tíma án þess að verkefninu hafi verið hrint af fullum þunga í framkvæmd. Það er von okkar að á fyrri hluta þessa árs ljúkum við undirbúningnum og þá hefjist eiginleg framkvæmd. Jafnframt því sem mikill áhugi er innan greinarinnar þá eru líka uppi ólík sjónarmið á því hvernig formið á að vera og hverjir eigi að koma að framkvæmd og fjármögnun. Flestir eru þó sammála um að ímyndaruppbygging af þessu tagi geti skilað miklum beinum ávinningi í markaðsstarfi og sölu,“ segir Helga.

Helga T -9278

Helga Thors, markaðsstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Mynd: Þormar Gunnarsson

 

Áherslunni beint að neytendum

Líkt og margir þekkja hefur markaðsstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir að stórum hluta beinst að millisöluaðilum erlendis sem aftur selja vörurnar áfram til smásöluaðila á neytendamarkaði. Það nýmæli er í starfi Helgu og SFS að áherslunni verður fyrst og fremst beint að endastöð neyslukeðjunnar, þ.e. neytendum.

„Hugmyndin er að vekja athygli hjá neytendum og auka togkraft þeirra og áhuga á að fá íslenskar vörur. Þetta þýðir að neytendum þarf að vera sýnilegt að varan sem þeir kaupa sé íslensk, og í sumum tilfellum er það þannig nú þegar þó svo að í mörgum tilfellum þurfi að tengja vöruna Íslandi mun betur en nú er gert. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við veljum að skapa þetta tog frá neytendum á millisöluaðilana – að þeir síðarnefndu finni með beinum hætti að neytendur kalla eftir vörum sem skýrt og greinilega eru merktar Íslandi. En til að þetta gerist þurfum við að segja neytendum söguna að baki íslenskum sjávarafurðum. Og þá komum við til með að nota þær stoðir sem við þekkjum, t.d. ábyrgar fiskveiðar, hreina hafið, gæði og ferskleika, margra ára þekkingu í veiðum og vinnslu, stuttar flutningaleiðir, öfluga nýsköpun, sjálfbæra nýtingu fiskistofna og þannig má áfram telja. Skilaboðin þurfa að vera einföld og skýr og ná eyrum neytenda,“ segir Helga.

Neytendur meðvitaðir um heilnæmi fisks

Meðvitund neytenda um heilnæmi fisks, sér í lagi villta fisksins, segir Helga mikilvægan grunn að byggja á í þessu verkefni. „Neytendur eru sífellt að verða meðvitaðri um nauðsyn þess að þekkja uppruna matvæla, framleiðsluaðferðir, notkun aukaefna, næringargildi og svo framvegis. Þessa bylgju viljum við nýta okkur, enda tel ég einsýnt að um sé að ræða vitundarvakningu fremur en það sem kalla mætti bólu,“ segir Helga en uppbygging á gagnagrunni um neysluvenjur og þróun á mörkuðum segir hún að verði einn af mörgum þáttum verkefnisins til lengri tíma litið.

„Norðmenn hafa til dæmis varið háum fjárhæðum í slíkan gagnagrunn og þó að við höfum ekki nema lítið brot af þeim fjármunum úr að spila þá tel ég miklu skipta að koma slíkum grunni upp. Raunar erum við nú þegar komin af stað með vísi að honum.“

Aðspurð segir hún eðlilega horft til markaðsstarfs og ímyndaruppbyggingar Norðmanna á undanförnum árum. „En þeir hafa líka farið leiðir í þessu starfi sem hér yrðu aldrei farnar. Til dæmis hafa þeir lítil tengsl markaðsstofu sinnar við greinina sjálfa, sem við teljum hinsvegar lykilatriði. Annað dæmi er mikil áhersla þeirra á leit að nýjum mörkuðum í stað þess að styrkja og auka verðmæti á þeim mörkuðum þar sem við erum fyrir,“ segir Helga.

Samfélagsmiðlar nýttir

Þar sem úr takmörkuðum fjármunum verður að spila í markaðsstarfinu segir Helga að velja þurfi af kostgæfni hvert kastljósinu verður beint og hvernig.

„Ég reikna með að við komum til með að byrja á heildrænum skilaboðum, byggðum á þeim stoðum sem ég nefndi áður og styðja þau skilaboð með nýju upprunamerki. Slíkt ætti að nýtast öllum aðilum sem koma að markaðs- og sölustarfi sjávarafurða. Síðan munum við vinna markaðsefni fyrir tiltekin svæði og markaði sem mun nýtast þeim aðilum sem eru að selja á viðkomandi mörkuðum. Í slíkum tilfellum yrði um að ræða sértækar áherslur eða átak en að baki yrðu alltaf grunnskilaboðin sem gilda fyrir íslenskar sjávarafurðir almennt, hvar í heiminum sem þær eru seldar,“ segir Helga en takmarkaðir fjármunir gera það að verkum að litlu verður hægt að verja í beinar auglýsingar.

„Við sjáum fyrir okkur að nota samfélagsmiðla í miklum mæli, koma á viðburðum sem tengjast íslenskum sjávarafurðum og vekja athygli fjölmiðla með ýmsum hætti. Verkefnið er að skapa frumleika sem nær í gegn og til þess höfum við fengið sérhæfða erlenda aðila sem búa yfir mikilli reynslu af svona markaðsstarfi. Nú þegar höfum við ákveðnar hugmyndir um framkvæmdaáætlun sem mun taka á sig nánari mynd þegar grunnskilaboðin og merkið liggja fyrir. Þetta eru því spennandi vikur og mánuðir sem í hönd fara,“ segir Helga Thors, markaðsstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

Attachments

Comments are closed.