Meira af frystum þorskflökum til Bretlands

Deila:

Meira Innflutningur á frystum þorskflökum til Bretlands fyrstu níu mánuði ársins var tæplega 41.000 tonn. Það er 9% minna en á sama tíma í fyrra. Mest af þorskinum flytja Bretar inn frá Íslandi, en á tímabilinu janúar til september í ár nemur þessi útflutningur frá Íslandi 13.000 tonnum. Rússar koma næstir með rúmlega 7.000 tonn á umræddu tímabili, samkvæmt frétt frá upplýsingamiðluninni Sea Data Center.

Önnur lönd sem selja Bretum fryst þorskflök eru Þýskaland, Færeyjar, Noregur og Danmörk með 2.000 til 4.400 tonn. Kína og Vietnam eru einnig á þessum lista með milli 1.000 og 2.000 tonn.

Innflutningur frá flestum þessara landa minnkaði á þessu ári, mest frá Rússlandi, Færeyjum og Danmörku. Samdrátturinn nemur alls 4.500 tonnum. Innflutningur jókst á hinn bóginn frá Íslandi, Þýskalandi og Noregi og jókst markaðshlutdeild Íslands úr 27% í 32%. Innflutningur fá Lettlandi margfaldaðist, en hann er engu að síður mjög lítill.

Þessi samdráttur hefur leitt til hækkandi verðs á flökunum. Meðalverð á flökum frá Íslandi hefur hækkað úr 6,64 evrum á kíló í 7,49 evrur frá september í fyrra til sama mánaðar í ár. Verð á flökum frá Rússum hafa farið úr 5,59 evrum kílóið í 7,15. Þetta er 13% verðhækkun á íslensku flökunum en 28% á þeim rússnesku. Meðalverð á heildinni hefur farið úr 5,77 evrum í 7,08.

Ísland nýtur bæði aukningar í magni og  verði, en forskot Íslands í verði hefur minnkað, líklega vegna bættra gæða frá keppinautunum.

Frystu þorskflökin eru Bretum mjög mikilvæg, sérstaklega þar sem markaðurinn fyrir fisk og franskar er mjög háður þeim. Þar sem megnið af flökunum koma frá Íslandi og úr Barentshafi, er ekki að vænta mikillar aukningar í framboði, en markaðurinn virðist áfram verða sterkur, nema Brexit skaði hann á einhvern hátt samkvæmt úttekt Sea Data Center.

 

Deila: