-->

Meira af undirmálsþorski í fyrra

Undirmálsafli í þorski hefur verið nokkuð stöðugur hlutfallslega síðastliðin fjögur ár eða frá  0,7 – 0,8% af heildarþorskafla íslenskra skipa. Á síðasta ári var 1.637 tonnum af undirmálsafla landað hér á landi sem er nokkur aukning frá árinu á undan en þá var 1.352 tonnum landað. Þetta helst í hendur við aflaaukningu í þorski úr 182 þúsund tonnum í 205 þúsund tonn. Í lögum um stjórn fiskveiða er undirmálsaflinn skilgreindur sem allur þorskur sem er undir 50 sm á lengd (27 sm hausaður).

Frá þessu er sagt á heimasíðu Fiskistofu. Þegar horft er til síðustu tveggja áratuga þá kemur í ljós að hlutfall og magn undirmálsafla hefur sveiflast mikið. Til að mynda var undirmálsaflinn óvenju mikill árið 1993 eða 6.150 tonn sem var 2,4% af lönduðum þorskafla íslenskra skipa það árið. Tveimur árum síðar (1995) var undirmálsaflinn aðeins 254 tonn eða einungis 0,1% af lönduðum þorskafla.  Þess má geta að í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða er ákvæði sem segir að undirmálsafli í aflamarki teljist til hálfs til aflamarks. Þetta ákvæði var fellt úr gildi á árunum 1995 og 96 og kann það að vera meginskýringin á miklum samdrætti sem varð í löndun á smáþorski á þessu tímabili. Skýringin á þessum sveiflum eru margþætt, s.s. stærð árganga, brottkast og breytingar á reglum um stjórn fiskveiða.
Þegar horft er til landaðs undirmálsafla yfir árið þá er mest um hann á haust- og vetrarmánuðum. Til að mynda hefur rúmlega 40% af undirmálsafla ársins verið landað á haustmánuðum (september til nóvember) en á vor- og sumarmánuðum (apríl til ágúst) hefur hins vegar um 23% af undirmálsaflanum verið landað.
Fiskistofa gerir fjölmargar mælingar á undirmálsafla og beitir áminningum og í nokkrum tilvikum sviptingu veiðileyfis þar sem flokkun undirmálsafla hefur ekki verið í samræmi við reglur. Þetta eftirlit kann að hafa leitt til nákvæmari flokkunar á undanförnum árum.