-->

Meira flutt utan af þorski frá Noregi

Mikil aukning hefur verið á útflutningi þorskafurða frá Noregi á þessu ári. Aukningin í maí er 14% mælt í verðmætum. Alls voru fluttar út afurðir úr þorski fyrir 18,7 milljarða íslenskra króna í maí og er það 2,7 milljöðrum meira en í sama mánuði í fyrra.

Mælt í magni er aukningin ríflega 10.000 tonn eða 32%. Ljóst er því að verð á þorskinum hefur lækkað verulega frá því í maí í fyrra eða samsetning útfutningsins er óhagstæðari en þá. Mestur er vöxturinn í heilfrystum þorski. Útflutningur á honum hefur aukist um 4.100 tonn í magni og um einn milljarð íslenskra króna að verðmætum.
Mikið af ferskum þorski er flutt út á markaði í Evrópu en einnig hefur útflutningur á þurrkuðum saltfiski til Brasílíu og heilfrystum þorski til Kína farið vaxandi sé borið saman við maí í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá útflutningsráði Noregs fyrir sjávarafurðir, nam útflutningsverðmæti ferskra þorskafurða úr veiðum 3,2 milljörðum króna. Það er aukning um 1,4 milljarða eða 73%. Gífurleg auning varð á útfluttum slægðum ferskum þorski, ríflega þreföldun. Mælt í magni fór sá útflutningur úr 1.400 tonnum í 4.400 tonn. Verðið lækkaði um fjórðung var nú ríflega 360 krónur á kílóið. Þessi magnaukning skilaði 935 milljónum krónum meira en í maí í fyrra. Heildarverðmæti þessa útflutnings urðu 16 milljarðar króna.

Útflutningur á heilfrystum þorski fór úr 3.121 tonnum til 7.225 tonn í maí, sem er aukning um 132%. Verðið féll úr 441 krónu í 315 á hvert kíló að meðaltali.  Verðmæti útflutningsins jukust um milljarð íslenskra króna. Mest af þessum heilfrysta fiski fer til Kína en mælt í magni óx salan þangað um tæp 1.500 tonn og verðmætin um 307 milljónir.

Útflutningur á þurrkuðum saltfiski skilaði 5,4 milljörðum í maí. Það er vöxtur um 2% eða ríflega 100 milljónir. Magnið var rúmlega 8.400 tonn, sem er 31% meira en í fyrra. Verð á þurrkuðum saltfiski úr þorski féll um 21% eða 200 krónur á kíló. Mest af þurrkaða saltfiskinum fer til Portúgal og næst mest til Brasilíu.

Útflutningur á skreið frá Noregi jókst einnig í maí  og skilaði verðmætum upp á 600 milljónir króna. Verðmæti jukust minna en magnið mælt í prósentum og var meðalverð tæplega 2.300 krónur á kíló, eða 14% lægra en í fyrra. Sala á flöttum blautverkuðum saltfiski dróst hins vegar saman mælt í verðmætum, en magnið jókst 693 tonn og endaði í 4.134 tonnum. Verðlækkun nam 25%.

Loks má nefna að samdráttur varð í útflutningi ferskra þorskflaka.
Skýringin á breytingum á útflutningi og útflutningsverðmætum liggur fyrst og fremst í auknu framboði eftir 250.000 tonna aukningu á þorskkvótanum í Barentshafi. Það leiðir svo til lækkunar á afurðaverði.
Á meðfylgjandi mynd má sjá norska skreiðarverkun.