„Merry Fishmas!“

193
Deila:

Þegar íslenskur fiskur er á borð borinn þá er hátíð í bæ. Nú er hafin markaðsherferð á Bretlandseyjum til að auka vitund fólks um gæði og heilnæmi íslensks fisks og að fiskistofnar við Ísland séu nýttir á sjálfbæran hátt.  Best er að borða fisk tvisvar í viku árið um kring eins og segir í nýrri auglýsingu, enda hrein og holl afurð.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa sameinast undir slagorðinu Seafood from Iceland til að auka útflutningsverðmæti með einu upprunamerki. Herferðinni er einnig ætlað að  kynna íslenskan uppruna og auka jákvæðni til íslenskra sjávarafurða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Íslandsstofa eru samstarfsaðilar verkefnisins en að baki því standa 30 fyrirtæki víðsvegar um landið.

Yfirskrift herferðarinnar er Fishmas og verður hún fyrst og fremst keyrð á samfélagsmiðlum. Father Fishmas sem Egill Ólafsson leikur er í aðalhlutverki ásamt íslenskum gæðafiski. Húmorinn er ekki langt undan. Brandenburg framleiddi auglýsinguna, en auk hennar er búið að opna vefinn www.fishmas.com þar sem fólk getur lært að elda tíu einfalda, en gómsæta fiskrétti heima. Vegna COVID-19 hefur fólk neyðst til að dvelja meira heima hjá sér en góðu hófu gegnir og því kjörið að létta lundina með kræsingum af Íslandsmiðum. Því var blásið til hátíðar íslenska fisksins í Bretlandi og hver veit nema íslenska fiskinum verði fagnað víðar um heiminn í framhaldinu.

„Íslendingar hafa löngum verið þekktir sem fiskveiðiþjóð í Bretlandi. Nýleg könnun sýndi hins vegar að vitund yngra fólks um íslenskan fisk fer minnkandi. Af þessum sökum meðal annars er ráðist í Seafood from Iceland herferðina til að auka vitund um íslenskan fisk meðal almennings. Breskir heildsalar þekkja þó fiskinn vel, enda átt í traustu viðskiptasambandi við íslensk fyrirtæki í áratugi um kaup á sjávarafurðum af einstökum gæðum.

Almenningur í Bretlandi þekkir vel hreina og fallega íslenska náttúru. Nú munu Bretar fá að kynnast íslenskum sjávarútvegi enn betur, sem er rótgróin og tæknivædd atvinnugrein, læra að elda girnilega fiskirétti og að maginn kallar í ríkari mæli á sjávarfang af Íslandsmiðum,“ segir í frétt frá SFS um herferðina.

 

Deila: