Mestur þorskkvóti í Grindavík

Deila:

Grindavík er kvótahæsta höfn landsins í þorski samkvæmt nýrri úthlutun Fiskistofu. Þorskveiðiheimildir skráðar á skip með heimahöfn í Grindavík eru 26.000 tonn.

Fjögur fyrirtæki skipta þessum heimildum nánast öllum á milli sín. Samkvæmt lista Fiskistofu er Vísir með 11.500 tonn, Þorbjörn 11.000 tonn, Stakkavík 3.000 tonn og Einhamar 1.500 tonn.

Næstu þorskveiðihafnir eru Vestmannaeyjar með 20.500 tonn, þar sem Vinnslustöðin og Ísfélagið eru stærstu fyrirtækin. Næst kemur Dalvík með 12.300 tonn og þar er Samherji með megnið af heimildunum. Þá kemur Rif með 12.250 tonn og þar eru stærstu fyrirtækin Hraðfrystihús Hellissands og KG fiskverkun. Í Reykjavík eru þorskveiðiheimildir 12.100 tonn, þar sem Brim og Útgerðarfélag Reykjavíkur eru stærstu útgerðirnar. Loks er Sauðárkrókur með 11.100 tonn og þar er Fisk Seafood með nánast allar heimildirnar.

Þegar litið er á einstök fyrirtæki, er Samherji með mestan þorskkvóta, 16.600 tonn, Brim með 13.100 tonn og Fisk Seafood með 12.600. Kvóti þessara þriggja fyrirtækja er á skipum sem ekki eru öll skráð á sama stað og skýrir það mismun milli fyrirtækja og heimahafna.

Deila: