Met slegið í frystihúsi LVF

80
Deila:

Í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hefur lífið gengið umfram sinn vanagang, ef þannig er hægt að komast að orði um góðan árangur.  Á dögunum var slegið met í afköstum frystihússins þegar 230 tonn af fiski voru unnin á 42 klukkustundum.  Hafa aldrei jafn mörg tonn farið í gegn um vinnsluna á jafn skömmum tíma.

Þorri Magnússon framleiðslustjóri var sáttur við árangurinn og sagði þetta afar ánægjulegt og ekki síst vegna þess að innan þessara 42 klukkustunda hefði verið 4-5 klukkustunda bilun í vélbúnaði.  Sagði Þorri einnig að fyrst og fremst væri þetta starfsfólkinu að þakka. „Hér er hörkumannskapur,” sagði hann og ítrekaði það aftur: „í  fyrsta lagi hörku mannskapur, síðan bættur búnaður og gott hráefni er grundvöllurinn að þessu góða gengi,” bætti hann við í samtali á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.

Aflinn sem unnin er í frystihúsinu kemur af Ljósafelli, Sandfelli og Hafrafelli, auk þess sem að keyptur hefur verið afli af Sigurði Ólafssyni SF á Höfn. Sagði Þorri að jafnan þyrfti að kaupa hráefni á fiskmarkaði til viðbótar við það hráefni sem fley LVF koma með að landi, slík er orðin framleiðslugeta frystihússins.

Sífelldar endurbætur eru í gangi í frystihúsinu, aukin tækni og búnaður sem gerir það að verkum að aukning í framleiðni er stöðug.  „Ég hef þá sýn að ekki séu ýkja mörg ár í að við tökum 10 þúsund tonn af bolfiski í gegn um húsið, það eru bara nokkur misseri í það,” sagði Þorri þegar hann var inntur eftir framtíðarsýn.

Þegar vel gengur og afköst eru mikil skilar það sér líka í launum starfsmanna, bónusinn ríkur upp og fólkið sem vinnur verkin fær aukin laun, svo ekki sé nú minnst á kökuna sem boðið var upp á í tilefni árangursins.  Gott er að launa gott með góðu.

 

Deila: