-->

Met slegið í útflutningi sjávarafurða

Á föstu meðalgengi ársins nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 239,6 ma.kr. á síðasta ári og jókst það um 34,5 ma.kr. milli ára eða 16,8%. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu nafngengi hefur ekki áður mælst jafn mikið ef horft er allt aftur til ársins 1961. Næstmesta útflutningsverðmætið var árið 2015 en uppfrá því ári tók krónan að styrkjast verulega og lækkaði útflutningsverðmætið mælt í krónum töluvert. Gengisvísitala krónunnar var 167 stig að meðaltali á síðasta ári borið saman við 160 stig árið 2017 og var þetta í fyrsta skiptið síðan árið 2012 að gengi krónunnar veiktist milli ára samkvæmt Hagsjá Landsbankans. Í hagsjánni segir ennfremur svo:

Útflutningsverðmætið jókst um 21,7% á gengi hvers tíma

„Á verðlagi hvers tíma nam útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 239,7 ma.kr. á síðasta ári borið saman við 197 ma.kr. árið áður og jókst útflutningurinn því um 42,7 ma.kr. eða 21,7%.

Aukið útflutningsverðmæti þorsks hafði mestu áhrifin

Sú tegund sem hafði mestu áhrifin á aukið aflaverðmæti milli ára var þorskur en aflaverðmæti hans jókst um 16,7 ma.kr. milli ára og stóð hann því á bak við um 39% af aukningu aflaverðmætis sjávarafurða milli ára. Þessa miklu breytingu má skýra fyrst og fremst með auknum veiðum en þær jukust um 8,8% milli ára. Þá aukningu má fyrst og fremst skýra með sjómannaverkfallinu árið 2017 en veiðar á þorski voru mjög litlar í janúar og febrúar það ár. Útfluttur afli jókst hins vegar öllu meira eða um 9,8% en einnig má skýra aukið aflaverðmæti þorsks milli ára með verðhækkun á þorskafurðum í erlendri mynt. Alls námu veiðar á þorski um 275 þúsund tonnum á síðasta ári sem var 22 þúsund meiri veiði en árið 2017 en aukningin milli ára skýrist að nokkru leyti af því að vegna sjómannaverkfallsins mátti færa hluta af aflaheimildum milli ára. Það á við um fleiri tegundir en þorsk.

Sjómannaverkfallið hafði ekki bara áhrif á þorskveiðar

Verðmæti nokkurra annarra botnfisktegunda jókst einnig verulega milli ára og rétt eins og í tilfelli þorsksins kom aukningin til vegna meiri veiða sem aftur má skýra að nokkru leyti með sjómannaverkfallinu. Útflutningsverðmæti ýsu jókst um 3,4 ma.kr. á síðasta ári en veiðar á henni jukust um rúman þriðjung milli ára. Útflutningsverðmæti ufsa jókst um 2,6 ma.kr. en veiðar á honum jukust einnig um rúman þriðjung milli ára. Verðmæti Grálúðu jókst um 4,7 ma.kr. milli ára en veiðar á henni jukust um tæplega 28% milli ára. Aflaverðmæti kolmunna jókst um 5 ma.kr. milli ára en veiðar á honum jukust um 31% milli ára.

Hækkun afurðaverðs í erlendri mynt hafði einnig áhrif

Það sem einnig hjálpaði við að gera aflaverðmæti síðasta árs sem mest var verðhækkun á íslenskum sjávarafurðum mælt í erlendri mynt. Verðvísitala sjávarafurða liggur ekki fyrir vegna alls ársins í fyrra en á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins var verð sjávarafurða að meðaltali 4,6% hærra en á sama tímabili árið áður mælt í erlendri mynt.

Aflaverðmætið líklegast minna á þessu ári

Líklegt verður að teljast að veiðar á þessu ári verði minni en í fyrra og helgast það af óvenjumiklum veiðum í fyrra vegna sjómannaverkfallsins 2017 og því að færa mátti hluta af aflaheimildum milli áranna 2017 og 2018 af sömu ástæðu. Það verður því að teljast líklegt að verðmæti sjávarafurða á þessu ári verði nokkuð minna en í fyrra mælt bæði í krónum og erlendri mynt. Þessu til viðbótar má bæta að eins og staðan er í dag verða ekki heimilar neinar veiðar á loðnu en útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 ma.kr. á síðasta ári.“

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Skiptast á að taka aflann um...

Makrílvertíðin sem hófst hjá Síldarvinnslunni um síðustu mánaðamót hefur farið hægt af stað. Skipin hafa helst verið að vei...

thumbnail
hover

Sólberg með um 2.500 tonn af...

Frystitogarinn Sólberg ÓF hefur nú sótt ríflega 2.500 tonn af þorski auk meðafla í öðrum tegundum í Barentshafið. Það hefur þ...

thumbnail
hover

Nýsmíði ekki útilokuð

Vísir hf. í Grindavík hefur tekið Bylgju VE á leigu og lagt Kristínu GK. Að sögn Péturs Hafsteins Pálssonar, framkvæmdastjóra fy...