Met í útflutningi afurða úr fiskeldi

94
Deila:

Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam 2,7 milljörðum króna í júní samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í morgun. Það er veruleg aukning frá júní í fyrra, eða um 91% í krónum talið. Að teknu tilliti til gengisbreytinga er aukningin aðeins minni, eða rúm 77%, en gengi krónunnar var 7% veikara nú í júní en sama mánuði í fyrra samkvæmt færslu á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ekki er við öðru að búast en að ofangreinda þróun megi rekja til eldisafurða, en þær flokkast undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar um vöruskipti. Útflutningsverðmæti  eldisafurða hefur verið um 85% af útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða á fyrstu 5 mánuðum ársins. Útflutningsverðmæti hefðbundinna landbúnaðarafurða (fiskeldi undanskilið) hefur verið nokkuð misjafnt á þessum tíma árs á undanförnum árum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Verði útflutningur þeirra áþekkur því sem hann hefur að jafnaði verið á síðustu árum, eru horfur á að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í það minnsta 2,3 milljarðar króna í mánuðinum. Verði það niðurstaðan er um langstærsta júní frá upphafi að ræða og útflutningsverðmæti eldisafurða komið hátt í 14 milljarða króna á fyrri árshelmingi, sem jafnframt er met. Eins og við höfum áður fjallað um hefur COVID-19 haft veruleg áhrif á fiskeldi. Samdráttur varð í útflutningsverðmæti eldisafurða í apríl og maí og er þróunin í júní því kærkomin. Af nýlegum fréttum að dæma hafa markaðir verið að taka við sér, þrátt fyrir að enn sé nokkuð í land að þeir nái fyrri styrk.

 

Deila: