-->

Methagnaður hjá Promens

Methagnaður var hjá fyrirtækinu Promens á síðasta ári. Promens framleiðir ýmsar vörur úr plasti en er þekktast hér fyrir framleiðslu á fiskikörum á Dalvík, áður undir nafninu Sæplast. Hagnaðurinn á síðasta ári  eftir afskriftir, skatta og fjármagnsgjöld endaði í 19,9 milljónum evra, sem er 10% meira en árið áður. Það svarar til ríflega þriggja milljarða íslenskra króna.
Sala félagsins var nánast sú sama og árið áður eða 594,5 milljónir evra, 92,4 milljarðar króna. Í tilkynningu frá félaginu segir kostnaður sem lagður hafi verið í markaðsmál og framleiðslu, til dæmis í Kína og Þýskalandi hafi dregið úr hagnaði fyrir skatta, fjármagnsgjöld og afskriftir. Sú fjárfesting muni hins vegar skila sér í vexti fyrirtækisins á komandi árum.
Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens,  segir að eftir gott ár megi gera ráð fyrir frekar aukningu tekna, sérstaklega í ljósi batnandi efnahagsumhverfis í Evrópu og sókn á nýja markaði. Stefnt er að því að skrá fyrirtækið á markaði fyrir lok þessa árs.