Mikið að gera í Slippnum

Deila:

Makríl- og rækjuskipið Svend C, sem er í eigu grænlensku útgerðarinnar Sikuaq Trawl Nuuk, hefur verið í flotkví Slippsins á Akureyri frá því um miðjan júnímánuð en skipið hélt aftur til veiða í byrjun þessarar viku. Svend C var smíðað árið 2016 og er 83,5 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og er eitt stærsta skip sem hefur verið tekið upp hér á Íslandi.

„Verkefnin í Svend C voru fjölbreytt en þar ber helst að nefna breytingar á rækju- og uppsjávarlínu á vinnsludekkinu sem unnar voru í samstarfi við danska fyrirtækið Carsoe, tengingar á nýjum andveltibúnaði, lagfæringar á RSW kerfi og endurbætur á stýri ásamt öðrum minniháttar viðhaldsverkum. Það er mikill styrkleiki fyrir Slippinn á Akureyri að geta boðið upp á fjölbreytta þjónustu og að geta tekið að sér verkefni af þessari stærðargráðu. Á undaförnum árum hafa sífellt fleiri grænlenskar útgerðir komið með skip til okkar sem er mjög jákvætt.” segir Gunnar Tryggvason verkefnastjóri Slippsins á Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Mikil traffík hefur verið á athafnasvæði Slippsins á Akureyri undafarnar vikur en uppsjávarskipið Venus sem er í eigu HB Granda hefur nýlega lokið slipp, þar var unnið í minniháttar viðgerðum á stýri og botn og síður skipsins málaðar. Í stóru dráttabraut Slippsins var línuskipið Örvar SH en skipið var öxuldregið, botn þess málaður ásamt síðum, auk upptektar á síðulokum. Áætlað er að skipið haldið aftur til veiða um helgina.

Drangey SK og Gullver NS eru nýlega komin og verða í slipp fram í næstu viku.

 

Deila: