-->

Mikil aðsókn að Fisktækniskólanum

Aðsókn í grunnám Fisktækniskólans í Grindavík hefur verið mjög góð og fer vaxandi. Í því eru nú 70 nemendur, en alls eru nemendur skólans um 150 nú á haustönn. Kennt er á fleiri, heilsárs brautum en í grunnnámi, en það eru brautir eins og Marel vinnslutækni, gæðastjórnun, fiskeldi og veiðarfæratækni. Aðsókn í allt þetta er gríðarlega góð og hefur verið eiginlega frá upphafi.

„Það sem af er þessu ári höfum við náð að halda vel dampi þrátt fyrir aðstæður, enda erum við yfirleitt með smærri hópa í hverri námsgrein enda eru þær mjög sérhæfðar. Það sem hefur nú staðið okkur fyrir þrifum er aðgangur að vinnustöðum eins og við höfðum áður. Þar fer fram viðkvæm matvælaframleiðsla og öryggis- og gæðakröfur mjög strangar. Þetta hefur slegið okkur aðeins út af laginu í hinum praktíska þætti námsins,“ segir Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskólans í samtali við Auðlindina.

Fisktækninámið líka kennt á pólsku

Annað sem fór af stað hjá skólanum í haust, sem er nýjung og mikill áhugi er á, er að byrjað er að kenna fisktækninámið á pólsku. Byrjað var á kynningu í sumar með styrk frá menntamálaráðuneytinu og framhald auglýst með haustönn til klára námið og nú eru 17 nemendur í því námi en gert var ráð fyrir að vera með 12. Þarna eru tveir kennarar og kennslan fer fram bæði á íslensku og pólsku og þannig læra nemendurnir líka meira í íslensku. Flestallir þar vilja halda áfram og klára námið, en það á eftir að finna út hvernig það verður leyst. Samningur skólans við ríkið er takmarkandi eins og staðan er núna.

Ólafur Jón Arnbjörnsson skólastjóri Fisktækniskólans

„Við erum að kenna núna á fimm stöðum, því húnæði okkar er mjög takmarkað. Þá þurfum við líka að virða sóttvarnarreglur. Því erum við með nemendur víða, bæði í Grindavík og Reykjavík. Töluvert er pípunum  af nýjungum. Áhugi ungs fólks og eldra líka á námi innan Bláa hagkerfisins hefur aukist verulega. Það er kannski vegna þess að fólk hefur áttað sig á því hve miklum breytingum þetta hefur tekið, frá hefðbundnum veiðum og vinnsla yfir í allar þær aukaafurðir, sem nú eru unnar úr fiskinum, og ný tæki í þjónustu og vinnslu. Þar má taka dæmi um Marel vinnslutæknina, en þar er fjórða iðnbyltingin á fullri ferð og mikil eftirspurn eftir fólki með þá þekkingu.“

Erlend samvinna

Fisktækniskólinn hefur verið í mjög öflugu í erlendu samstarfi, sérstaklega norrænu í samstarfsneti norrænna fiskvinnsluskóla. „Það eru níu skólar í okkar neti í öllum Norðurlöndunum nema Svíþjóð. Það gengur mjög vel en Covid hefur hamlað framganginum í vor og haust. Þá má segja að það sé nýr kafli, en það nám okkar á sviði fiskeldis. Það hefur bæði verið hluti af grunnnáminu okkar og síðan sérbraut sem við köllum þriðja árið í samstarfi við Hólaskóla. Þar er hafið mjög öflugt samstarf við öll stærstu fyrirtæki í fiskeldi í sjó, en við höfum lengi verið í samstarfi við fyrirtæki í landeldi, eins og Samherja, Stofnfisk og Matorku og fleiri.

80 milljóna styrkur frá ESB

Ný verkefni sem við fórum af stað fyrir tveimur árum eru í samstarfi við Arnarlax og Arctic Fish og Fiskeldi Austfjarða. Þar höfum við verið með staðnám á Bíldudal og höfum verið að taka inn nemendur á Ísafirði og fyrir austan með meiri sérhæfingu í fiskeldinu. Þetta höfum við unnið í samstarfi við Hólamenn þó þar sé háskóli, en við á framhaldsskólastigi, en allt er þetta á sviði starfsmenntunar.  Við sjáum um alla starfsþjálfun hjá Arnarlaxi og nú eru að fara að útskrifast yfir 20 nemendur í desember, bæði frá Arnarlaxi og Arctic Fish eftir tæplega tveggja ára nám með vinnu.  Þetta samsvarar heilli náms önn eða 30 einingum.    Þetta verður fyrsti hópurinn í þessu samstarfi og með öflugum stuðningi þessara fyrirtækja. Það sem er merkilegast í þessu er að þetta hefur verið unnið í nánu samstarfi  öflugustu skóla í Noregi í fiskeldi og í gegnum tvö evrópsk verkefni. Nú, rétt nýlega, fengum við staðfest að við erum að fá sennilega einn stærsta styrk sem veittur hefur verið á sviði starfsmenntunar í fiskeldi í Evrópu. Það er undir stjórn Norðmanna, en við erum lykilaðili að þessu verkefni hér. Þetta er svokallað COVE-verkefni sem er til fjögurra ára. Þetta er svona klasaverkefni og getur verið á mörgum sviðum, en þetta er hugsað til starfsmenntunar í fiskeldi. Það þýðir að næstu fjórum árum höfum við tækifæri til þess að byggja upp og efla okkur sem leiðandi í starfsmenntun í fiskeldi á framhaldsskólastigi í Evrópu. Þetta eru hvorki meira en minna en 20 milljónir á ári, sem við fáum næstu fjögur árin.

Grindavíkurbær hefur tekið ákveðna forystu í samstarfi Fisktækniskólann um að byggja nýtt hús við Kvikuna í Grindavík, þar sem skólanum er ætlað húsnæði, enda fyrir löngu búinn að sprengja allt núverandi húsnæði utan af sér. Sem stærsti fulltrúi eigenda Fisktækniskólans er Grindavíkurbæri að leiða þessa vinnu í Kvikunni og er skólanum ætlað að vera þar ákveðin kjölfesta.

Bjart framundan

„Það er mjög bjart framundan og öll þessi umsvif hafa leitt til þess að við höfum tvöfaldað fjölda starfamanna. Við vorum sex fastir starfsmenn og erum komin í 11 og erum að bæta við þeim 12. En samningurinn frá ríkinu er enn að færa okkur sömu upphæð og var fyrir fimm árum. Það er sama upphæð á fjárlögum og var 2016. Ráðherra menntamála, Lilja Alfreðsdóttir, hefur sýnt okkur mikla velvild og við væntum þess að það komi fram í nýjum samningi til næstu fjögurra ára. Skilningur menntamálaráðherra á mikilvægi menntunar á þessu sviði er mikill og við gerum ráð fyrir að nýr samningur endurspegli það. Það eru yfir 160 manns sem hafa lokið grunnnámi í fisktækni á Íslandi frá árinu 2012. Það eru yfir 60 sem hafa lokið gæðastjórnun, 50 sem hafa lokið Marel vinnslutækni og aðsóknin góð og vaxandi.

Raunfærnimatið mikilvægt

Svo erum við í mjög góðu samstarfi við flesta framhaldsskóla á landinu og símenntunarmiðstöðvar. Námið hefur verið boðið fram í sjávarbyggðum víða um land í samstarfi við Fisktækniskólann. Við leggjum mikla áherslu á gott samstarf við sjávarútvegsfyrirtækin og sjávarbyggðir á landinu. Það eru margir skólar sem vilja bjóða upp á okkar nám út frá því grundvallaratriði að best er að geta boðið upp á námið í heimabyggð. Þá hefur raunfærnimat fyrir fólk sem starfar í veiðum og fiskvinnslu verið bylting fyrir það hvað varðar kjör og sem einingar inn í framhaldssóla. Ég held að séu um 400 manns sem hafa farið í gegnum þetta mat í samstarfi okkar og símenntunarstöðva hringinn í kringum landið. Síðan hafa margir haldið áfram í náminu og klárað,“ segir Ólafur Jón Arnbjörnsson.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ertu öruggur um borð?

Vinnslustöðin, FISK Seafood og VÍS hafa hrundið af stokkum átaksverkefni sem ætlað er að beina kastljósum að öryggismálum á ski...

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...

thumbnail
hover

Smjörsteikt rauðspretta

Rauðspretta er sérlega góður matfiskur með alveg einstöku bragði. Hana má elda á fjölmarga vegu en að þessu sinni leituðum við...