Mikil aukning í fiskeldi fyrirsjáanleg

199
Deila:

Ríflega fjörutíu prósenta aukning verður í fiskeldi hér á landi, frá því sem nú er, verði allar umsóknir um ný rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun samþykktar. Mest er aukningin í laxeldi í sjókvíum. Þegar eru í gildi leyfi fyrir tæplega 110 þúsund tonna eldi. Frá þessu er greint á ruv.is

Þrjátíu og fimm fyrirtæki og stofnanir hafa leyfi til að starfrækja fiskeldisstöðvar hér á landi, ýmist á landi eða í sjó. Þetta eru bæði fyrirtæki í seiðaeldi og eldi á fullorðnum fiski.

Rekstarleyfi fyrir framleiðslu á 108 þúsund tonnum

Mesta eldið er á Vestfjörðum þar sem er leyfilegt að ala ríflega 51 þúsund tonn, mestallt í sjókvíum. Á Austfjörðum er leyfi fyrir tæplega 37 þúsund tonna sjókvíaeldi. Fyrirtæki á Norðurlandi hafa rekstrarleyfi fyrir rúmum fimm þúsund tonnum og þar er aðallega landeldi. Langmesta landeldið er svo á Suðurnesjum og Suðurlandi þar sem heimilt er að ala rúm fimmtán þúsund tonn. Samtals eru í gildi á landinu öllu leyfi til að ala ríflega 108 þúsund tonn.

Yfir 30 umsóknir um ný rekstrarleyfi

Hjá Matvælastofnun eru nú 9 umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi og 25 umsóknir um landeldi. Þessar umsóknir fela í sér um 43 prósenta aukningu á fiskeldi, frá því sem nú er, verða þær allar samþykktar og gefnar út.

Langmestur vöxtur í sjókvíaeldi

Og þótt umsóknir um sjókvíaeldi séu færri, fela þær í sér mun meira eldi. Mest yrði aukningin á Vestfjörðum og þar er eingöngu sótt um aukið sjókvíaeldi. Það sama á við á Austfjörðum. Og bróðurpartur umsókna fyrir aukið landeldi er á Suðurnesjum og Suðurlandi. Heildaraukningin sem liggur að baki nýjum umsóknum er rúmlega 47 þúsund tonn.

Áframhaldandi vöxtur

Í nýlegri samatekt Hagstofunnar kemur fram að framleiðsla á eldisfiski hér á landi tók stökk milli áranna 2018 og 2019 og jókst þá um 77 prósent milli ára. Miðað við áform eldisfyrirtækjanna og umsóknir um ný rekstrarleyfi, bendir fátt til annars en að þessi þróun haldi áfram.

 

 

Deila: