Mikil verðmætaaukning í sjávarútvegi

116
Deila:

Matís hefur á síðustu árum unnið ötullega með sjávarútvegsfyrirtækjum að því að auka verðmæti uppsjávaraflans. Rannsókna- og þróunarstarf hefur að mestu snúist um makrílinn, sem óvænt kom inn í íslenska lögsögu. Þetta kemur fram í afrakstursskýrslu Matís fjallar um starfsemi sem fellur undir Þjónustusamning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið 2019. Þar segir ennfremur:

„Finna þurfti leiðir til að nýta hann til manneldis. Nú er svo komið, í góðri samvinnu sjávarútvegsfyrirtækja, framleiðenda kælibúnaðar, Matís og Háskóla Íslands, að megnið af þeim makríl sem veiðist hér við land er fluttur út frystur sem matvæli. Þetta hefur skilað þjóðarbúinu á annað hundrað milljörðum síðustu 10 árin. Rannsóknir hafa verið gerðar á möguleikum þess að flaka makríl og skoðað hvernig unnt er að ná upp viðunandi geymsluþoli á flökum í frosti. Við flökun fellur til annað hráefni: haus, slóg og bein, sem mikil spurn er eftir til mjöl- og lýsisframleiðslu. Hugmyndir eru að mótast um að nýta betur það sem nú fer í mjöl og lýsi og vinna úr því verðmætari afurðir, t.d. íblöndunarefni í matvælaiðnað, fæðubótarefni eða verðmæt viðbótarefni í fóðurgerð. Samstarf Matís við Síldarvinnsluna hefur verið mjög farsælt og hafa sex doktorsnemar unnið að hluta nám sitt við starfsstöð Matís í Neskaupstað við verðmætasköpun á uppsjávaraflanum.“

Skýrsluna má nálgast hér.

Deila: