Mikil vonbrigði

95
Deila:

Landssamband smábátaeigenda fundaði með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sl. fimmtudag 2. júlí.  Þar kynnti LS tillögu sína um heildarafla í þorski á næsta fiskveiðiári, að hann yrði 272 þúsund tonn. LS ráðlagði ráðherra að fallast ekki á tillögu Hafrannsóknastofnunar um að leyfilegur heildarafli í þorski yrði 256,6 þúsund tonn, skerðing um tæp 6% – um 16 þúsund tonn.  Rök Hafró fyrir nauðsyn þess væru ekki nægilega traust til að hægt væri að fara eftir þeim. Ráðherrann varð ekki við beiðni LS og hefur ákveðið að fara í einu og öllu að tillögum Hafró.

„Í kynningu LS kom fram að ekki léki vafi á að þorskstofninn stæði sterkt.  Það sýndi sig best á að stórir hrygningarstofnar undanfarinna ára hefðu skilað af sér 7 árgöngum þar sem fjöldi 3 ára nýliða væri bæði umfram meðaltal síðasta áratugar og aldarfjórðungs.

LS gagnrýndi þá ákvörðun Hafró að breyta forsendum fyrir útreikningi á veiði- og hrygningarstofni, að nota vísitölur 1 ti 14 ára þorsk í stofnmatið í stað 1 til 10 ára eins gert hefur verið.  Einkennilegt væri að stofnunin kæmist upp með slíkt inngrip í aflareglu, ekki síst þegar hún er á síðasta ári.  Endurskoðun hennar stæði yfir og drög að nýrri væri í smíðum.  Rétt væri að ráðherra mundi ekki fallast á slík vinnubrögð, hvað þá að taka öll árin inn á sama tíma.

Önnur af megin ástæðum skerðingarinnar eru að árgangar 2014 og 2015 sem mældust nálægt langtímameðaltali í fyrra eru nú ári síðar einungis helmingur af meðaltalinu.  LS lýsti efasemdum með að þetta væri rétt mat hjá stofnuninni og benti m.a. á að minnkunin gilti ekki einungis um þessa tvo árganga heldur um flesta þá sem mælingin næði til.  Jafnframt ættu lækkanir vísitalna á einu ári sér nánast ekki fordæmi.  Ástæða væri því til að efast um mælingar í rallinu í mars sl.

LS hvatti ráðherra til að fallast á tillögu félagsins um 272 þús tonna hámarksafla á næsta fiskveiðiári og lauk kynningu sinni með eftirfarandi orðum:

„Í þeim ólgusjó sem blasir við í þjóðarbúinu munar um allt sem gefur auknar gjaldeyristekjur.  Velta þarf við hverjum steini.  Ákvörðun um leyfilegan heildarafla í þorski varðar gríðarlega hagsmuni.  Þorskurinn trónir yfir aðrar tegundir í aflaverðmætum.  Stóð undir 45% útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2019. 

 Stofninn er án alls vafa gríðarlega sterkur og sýnir enn betur að vert er að skoða tillögu LS um að breyta ekki heildarafla milli ára.“  

Ráðherra ákvað degi eftir kynningu LS að fara að ráðgjöf Hafró í einu og öllu.  Ákvörðun hans eru mikil vonbrigði.“

 

Deila: