Miklar hafnarbætur að hefjast í Þorlákshöfn

136
Deila:

Miklar framkvæmdir standa nú fyrir dyrum í höfninni í Þorlákshöfn og er verkið komið í útborðsferli. Suðurvarargarður verður lengdur um að minnsta kosti 250 metra. Við það verður minni hreyfing innan hafnarinnar sem auðveldar skipunum að koma inn því þau verða þá komin í var í innsiglingunni fyrr en áður. Austurgarður verður styttur um allavega 60 metra. Með því fæst stærra snúningsrými inni í höfninni. Elsti hluti af Svartaskersbryggjunni verður einnig endurnýjaður. Sá hluti var byggður 1974 og er þilið orðið mjög lélegt og götótt.

Höfnin betur skiptæk

„Þetta er að miklu leyti endurnýjun á bryggjuköntum á Svartaskersbryggju og Suðurvararbryggju og lenging á Suðurvarargarði og stytting á Austurgarði. Einnig verður dýpi aukið í 9 metra, bæði við Svartaskersbryggju og Suðurvararbryggju. Með þessu móti verður höfnin betur skiptæk og við getum tekið á móti allt að 180 metra löngum skipum,“ segir Hjörtur Jónsson, hafnarstjóri í Þorlákshöfn. Ferjan Mistral kemur til Þorlákshafnar á mánudögum, yfirleitt upp úr hádeginu, og fer aftur á bilinu 22-24 um kvöldið. Hún siglir til Hirtshals í Danmörku og kemur við í Færeyjum í báðum leiðum. Síðan kemur ferjan Mykines snemma á föstudagsmorgnum. Hún siglir til Rotterdam með viðkomu í Færeyjum á leiðinni frá Rotterdam til Íslands. Báðar ferjurnar eru frá færeyska skipafélaginu Smyril Line.

Ferjurnar fljótar í ferðum

Mykines er önnur tveggja færeyskra ferja sem sigla milli Þorlákshafnar og Evrópu.

„Flutningarnir hafa aukist mikið og skipin eru orðin fullnýtt, hvort sem er í inn- eða útflutningi. Þau hafa varla undan. Það eru langmest sjávar- og eldisafurðir sem fara utan með skipunum. Það er stöðug aukning í útflutningi á eldisfiski með þeim. Þetta er mjög góður kostur fyrir fiskeldið og fiskvinnsluna til að flytja ferskan fisk út. Ferjurnar eru það fljótar í ferðum og fljótlegt bæði að lesta og losa. Sem dæmi um þetta má nefna að á föstudögum er fiski slátrað á Bíldudal til kl. 14-15. Hann fer beint í flutningabíla og er kominn um borð í skipið um kvöldið. Fiskurinn er svo kominn til kaupandans á mánudagskvöldi í Þýskalandi og til kaupanda í Suður-Frakklandi og á Ítalíu á þriðjudagsmorgni.

Það eru gríðarleg verðmæti fólgin í hraðanum, að koma ferska fiskinum sem fyrst til kaupandans. Verðið á honum hækkar eftir því sem afurðirnar eru ferskari. Þetta skiptir miklu máli. Frá Þorlákshöfn er stysta leiðin frá Íslandi niður til Evrópu og það gerir gæfumuninn í þessum flutningum. Það gengi ekki að setja upp sama dæmi frá Faxaflóa, því þá lengist siglingin og nánast útilokað að halda áætlun yfir vetrartímann,“ segir Hjörtur.

Tvöföld hagkvæmni

Mikil uppbygging stendur nú yfir í landeldi á laxi í Þorlákshöfn og mun kalla á enn meiri úrflutning þaðan. En það er fleira sem felst í uppbyggingu eldisins. Hjörtur bendir á að miklar sprengingar þurfi til að gera grunn að eldissvæðinu og miklu skipti að komast neðarlega með grunninn, því það sé dýrt að dæla upp sjó fyrir eldið. Kostnaðurinn minnki verulega við hvern þann metra sem dælingin styttist. Grjótið sem komi upp úr þessum sprengingum verði svo notað í lengingu Suðurvarargarðsins. Þarna sé því um beggja hag að ræða. Tvöfalda hagkvæmni.

Opnar möguleika á gagnaverum

Hjörtur segir að stöðugt sé verið að spá og spekúlera í frekar umsvifum við höfnina. „Nýi Farice sæstrengurinn mun koma upp norðan við höfnina. Búið er að úthluta lóð fyrir tengivirki vegna þess. Það opnar á mikla möguleika fyrir uppbyggingu gagnavera. Svo er alls konar atvinnuuppbygging í pípunum. Maður getur aldrei sagt frá slíku fyrr en það er í höfn. Fyrir utan þessa flutninga er landað miklu af fiski í höfninni og auk þess er töluverður útflutningur á vikri héðan og gæti hann vaxið verulega ef vikurnám í stórum stíl verður hafið við Hafursey við Mýrdalssand,“ segir Hjörtur.

Viðtal þetta birtist fyrst í 5. Tölublaði Sóknarfæris, sem gefið er út af Ritformi. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land en það má einnig nálgast á heimasíðu Ritforms https://ritform.is/

Deila: