-->

Milljarði meira á uppsjávarfiskinn

„Það er ljóst að þarna er verið að hækka álögur á þá sem veiða uppsjávarfisk um 1,2 milljarða. Á móti er lækkun á bolfiskinn, en maður á eftir að sjá betur forsendurnar fyrir þessari breytingu til að geta tjáð sig betur um hana. Mér finnst að þarna sé enn á ferðinni samráðsleysi við hagsmunaaðila, þó náttúrlega sé jákvætt að gjaldið sé að lækka í heildina,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í samtali við kvotinn.is.

Eftir breytinguna, sem felst í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um veiðigjöld, verði hún að veruleika, verður sérstakt veiðigjald á næsta fiskveiðiári 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum. Án breytinga hefði gjaldið orðið 23,20 krónur á hvert kíló. Gjaldið verður, samkvæmt frumvarpinu 38,25 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum, en hefði ella orðið 27,50 krónur. Almennt veiðigjald verður svo 9,5 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló.
Eins og í gildandi lögum verður ekkert sérstakt veiðigjald greitt fyrir úthlutun fyrstu 30 þorskígildistonnanna og hálft gjald fyrir næstu 70.  Sérstakur afsláttur vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum verður óbreyttur.
„Þetta er auðvitað mun skárra, en ef lögin hefðu gilt áfram óbreytt. Vissulega er verið að lækka heildargjaldið mikið, um rúma þrjá milljarða í heildina,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður stjórnar LÍÚ. „Það er til bóta, en á hinn bóginn er verið að hækka gjald á uppsjávarfisk nokkuð mikið. Þarna er verið að færa á milli bolfisks yfir á uppsjávarfiskinn. Stjórn LÍÚ hefur ekki farið nægilega vel yfir frumvarpið til að mynda sér skoðun á því í heild. Okkur hefur ekki unnist tími tími til þess,“ segir Adolf.
Þær breytingar, sem nú eru til umræðu, eru tímabundnar. Framtíðarskipan þessara mála hefur verið sett í sérstaka nefnd til að koma með tillögur þar að lútandi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í dag í samtali við mbl.is að með því að falla frá áformum um veiðigjald væri komið í veg fyrir að sjávarútvegurinn sem grein yrði lögð í rúst, en jafnframt haldið í töluverðan hluta af þeim tekjum sem búið var að gera ráð fyrir í þjóðarbúið. Hann lagði þar áherslu á að þær aðgerðir sem nú sé farið í séu til eins árs en að því loknu taki við önnur aðferðafræði í málaflokknum. Hann sagði ekkert í hendi hvað varðar auknar tekjur af auknum aflaheimildum á næsta fiskveiðiári.