-->

Minni afli og lægra verð

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 44,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2013 samanborið við 46,7 milljarða á sama tímabili 2012. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um tæplega 2,2 milljarða króna eða 4,7% á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.
Skýringin á lægra aflaverðmæti liggur annars vegar í minni afla þetta tímabil, en ekki síður í lækkandi fiskverði. Það á sérstaklega við um botnfiskinn, en afli af honum fyrstu þrjá mánuði ársins var ívið meiri en á sama tímabili árið áður.

Aflaverðmæti botnfisks var rúmlega 25,5 milljarðar og dróst saman um 9,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti þorskafla var um 14,2 milljarðar og dróst saman um 10,0% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 3,7 milljörðum og dróst saman um 14,7% en verðmæti karfaaflans nam tæpum 4 milljörðum, sem er 13,4% samdráttur frá fyrstu þremur mánuðum ársins 2012. Verðmæti ufsaaflans jókst um 3,2% milli ára og nam rúmlega 1,7 milljarði króna í janúar til mars 2013.

Verðmæti uppsjávarafla nam rúmum 16,3 milljörðum króna í janúar til mars 2013, sem er um 10,5% aukning frá fyrra ári. Sú aukning skýrist að mestu af loðnuafla en aflaverðmæti loðnu nam 15,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er 18,4% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Mikill samdráttur varð hins vegar í síld og kolmunna. Aflaverðmæti flatfisksafla nam tæpum 2,1 milljörðum króna, sem er 28,0% samdráttur frá janúar til mars 2012.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 26,9 milljörðum króna og dróst saman um 1,1% miðað við fyrstu þrjá mánuði ársins 2012. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 4,8% milli ára og var tæplega 5,8 milljarðar króna. Aflaverðmæti sjófrystingar nam tæpum 10,4 milljörðum í janúar til mars og dróst saman um 9,5% milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 1,1 milljarði króna, sem er 27,0% samdráttur frá árinu 2012.

Hagstofan hefur endurskoðað bráðabirgðatölur fiskafla ársins 2012. Heildarafli íslenskra skipa var 1.448.544 tonn og aflaverðmætið rúmir 159 milljarðar króna. Þar af var þorskafli 204.645 tonn að verðmæti 49,5 milljarðar króna, ýsuafli  47.676 tonn að verðmæti 12,2 milljarðar króna, síldaraflinn 192.260 tonn að verðmæti 14,6 milljarðar og makrílaflinn 151.943 tonn að verðmæti 14,4 milljarðar króna.
Þegar litið er á aflaverðmæti eftir löndunarsvæðum fyrstu þrjá mánuði ársins kemur í ljós mikill samdráttur á suðvesturhorni landsins, Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. Á tveimur fyrrnefndu svæðunum er samdrátturinn um 11% en 24% á Vesturlandi. Hins vegar aukast aflaverðmæti á Vestfjörðum um 14%. Skýringin á þessum sveiflum liggur í tilfærslu á lönduðum afla auk verðbreytinga.
Eftir sem áður er mestum aflaverðmætum skilað á land á Austfjörðum. Þar var verðmæti aflans rúmir 10 milljarðar króna og jókst um 7%. Megninu af uppsjávarfiski er landað á Austfjörðum og þar munar miklu aukningu á loðnu milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu var landað fiski að verðmæti 8,4 milljarðar á umræddu tímabili, á Suðurnesjum voru verðmætin 6,7 milljarðar og 6,2 á Suðurlandi. Aflaverðmæti eru minnst á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra, ríflega tveir milljarðar króna, enda minnst aflamagn þar. Á Norðurlandi eystra var verðmæti aflans 4,5 milljarðar króna.
Á meðfylgjandi mynd Þorgeirs Baldurssonar er verið að losa úr pokanum niður í móttöku. Verðmæti aflans fer minnkandi.