Minnka magn kælimiðilsins freons um allt að 99%

266
Deila:

Fyrirtækið KAPP ehf. hefur þróað nýja lausn í kælikerfum fiskiskipa sem gerir kleift að minnka notkun freons um 90-99% en sá kælimiðill er óumhverfisvænn og því kappsmál að minnka notkun hans sem allra mest. Fyrsta kerfið með þessari nýju lausn var sett upp í fiskiskipinu Tjaldi SH í sumar og þar náðist að minnka magn freons í kælikerfi skipsins um 99%.

Tvöfalt kerfi og hliðarkæling
Í stað þess að kælikerfið byggist allt á kælimiðlinum freoni, þ.e. að efnið sé í kerfinu í heild frá kælipressum, í lögnum um skipið og í kælispírölum í lestum skipanna byggist lausnin frá KAPP ehf. á að kælikerfin eru í reynd tvö, þ.e. annars vegar flutningskerfi og hins vegar kælikerfi. Kælikerfið sjálft er með kælimiðlinum freoni sem kælist niður í allt að -40°C eftir aðstæðum á hverjum stað og liggur fast upp að flutningskerfinu, sem er með umhverfisvænan glykol vökva. Þar sem kerfin liggja þétt saman myndast hliðarkæling sem stundum er kölluð kuldaberi sem kælir glykolið án þess að komast í snertingu við freonið. Flutningskerfið flytur svo kalt glycol um lagnir skipsins í kælispírala í lestarrýminu.

Kælispíralar í lest Tjalds SH.

Heimir Halldórsson, þjónustustjóri hjá KAPP ehf. segir ávinning af þessu fjölþættan. Í fyrsta lagi sé freon í litlu og afmörkuðu kerfi í skipinu, utan fiskilestanna og ekki í lögnum um skipið, líkt og áður. Mun minni hætta sé á leka, auk þess sem einn af stóru ávinningunum felist vitanlega í því að hægt sé að minnka magn freons allt að 99%. Þá bendir hann á að kostnaður við glycol sé mun minni en freonið.

Hægt að nýta eldri kælikerfin
„Í öðru lagi er mögulegt að nýta stóran hluta af kælikerfinu sem er fyrir í viðkomandi skipi þó í mörgum tilfellum sé tækifærið við svona breytingar notað til að endurnýja gamlar lagnir og kælipressu. Fyrir skip sem eru með mikið endurnýjuð kerfi um borð þá er einfalt að skipta yfir í þessa umhverfisvænu hliðarkælingu okkar. Þetta er lausn sem hentar fyrir allar stærðir báta og skipa,“ segir Jónas. Aðspurður nefnir hann sem dæmi að í gamla kælikerfinu um borð í Tjaldi SH hafi verið um 2000 kg af freoni en eftir breytinguna fór magnið niður í 30 kíló.
„Freon er kælimiðill sem áfram mun verða notaður þar sem enginn betri kælimiðill hefur komið í staðinn. Hins vegar er það gríðarlegur áfangi að geta minnkað það magn sem er í skipunum jafn mikið og við gerum með nýja kerfinu, samhliða því að stórminnka hættu á leka í kælikerfinu sem eftir verður. Í dag er um 70% fiskiskipa í flotanum með freonkerfi um borð þannig að það er hægt að minnka notkun þessa efnis með okkar lausn niður í lítið brot af því magni sem er í skipunum í dag,“ segir Heimir.

Starfsmenn KAPP vinna við búnaðinn um borð í Tjaldi SH.
Deila: