Minnsti ufsaafli um árabil

83
Deila:

Nú, þegar líður að lokum yfirstandandi fiskveiðiárs, eru 31.400 tonn af ufsakvótanum óveidd. Leyfilegur afli á fiskveiðiárinu er 71.000 tonn, en aflinn er aðeins orðinn 39.500 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Hafrannsóknastofnun leggur til að á næsta fiskveiðiári fari aflinn ekki yfir 78.574 tonn.

Á síðasta ári var kvótinn 68.600 tonn, en aflinn varð aðeins 58.200 tonn.  Árin þar á undan var aflinn lengi vel um 50.000 tonn árlega. „Á síðustu sex fiskveiðiárum hefur ekki náðst að veiða upp í úthlutaðar aflaheimildir í ufsa og stefnir í að það náist heldur ekki á yfirstandandi fiskveiðiári. Breytingar á flotasamsetningu síðustu ár gætu hafa leitt til þess að ufsi veiðist ekki í sama mæli og áður. Sókn með línu hefur aukist en hlutdeild tog- og netaveiði minnkað, en ufsi veiðist mest í tog- og netaveiðum. Undanfarin ár hefur sókn í smáufsa verið mikil og talsvert af aflamarki fært yfir í aðrar tegundir,“ segir í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hæfilegan ufsaafla á næsta ári.

Tólf skip hafa náð að veiða meira en þúsund tonn af ufsa það sem af er þessu fiskveiðiári. Baldvin Njálsson GK er þar langaflahæstur með 2.500 tonn, en næstu tvö skip eru Höfrungur III AK með 1.865 og Vigri RE með 1.856 tonn

Deila: