Mjög góð síldveiði

Deila:

,,Það hefur verið mjög góð veiði en síldin er nú byrjuð að ganga í austurátt og við verðum því að fara lengra eftir henni,“ segir Theodór Þórðarsson, skipstjóri á Venusi NS, en skipið kom með um 1.600 tonna afla til Vopnafjarðar snemma í gærmorgun.

Alls var um 15-16 tíma stím frá miðunum til Vopnafjarðar.

,,Þetta eru nokkur viðbrigði frá túrnum á undan en þá fengum við um 1.300 tonn af síld djúpt í Héraðsflóadjúpinu. Þá merktum við að síldin var á austurleið og við enduðum núna úti við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja. Síldin virðist synda um 20 til 25 mílur á sólarhring og hvar hún verður þegar við komumst út næst skal ósagt látið.“

Theodór segir síldina vera mjög góða. Samkvæmt sýnum sé stæðin frá 380 grömmum upp í rúm 400 grömm. Fjögur íslensk skip og tvö færeysk voru að veiðum þegar Venus sigldi áleiðis til Vopnafjarðar en Theódór segir að rússnesku skipin hafi þá verið í Síldarsmugunni.

,,Við ættum að komast út að nýju á aðfararnótt fimmtudags. Það var kaldi á miðunum alla dagana hjá okkur og það er komin bræla núna. Vonandi gengur veðrið niður sem fyrst og það væri mikill kostur að fá gott veður þegar líður á vikuna,“ segir Theodór Þórðarson.

Deila: