Möguleikar á framleiðslu verðmætari afurða kannaðir

155
Deila:

Matís hefur að undanförnu verið að efla starfsemi sína úti á landi í takt við áherslur Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Hluti af þeirri uppbyggingu hefur verið fjárfesting í tilraunabúnaði fyrir rannsóknaaðstöðu sem staðsett er í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar er ætlunin að sinna rannsóknum t.a.m. á sviði fiskimjölsiðnaðar og taka skref í þá átt að vinna annars konar og verðmætari afurðir úr hráefni sem nú er nýtt til framleiðslu á hefðbundnu fiskimjöli og lýsi.

Nú þegar hafa verið gerðar ýmsar tilraunir í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað og hefur þá að hluta til verið notast við litla verksmiðju í eigu Vélsmiðjunnar Héðins. Búnaður sá sem Matís er að fjárfesta í kemur til viðbótar þeirri verksmiðju og ætti að auðvelda allar rannsóknir á þessu sviði og færa menn skrefi nær markmiði sínu. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Framleiðslulína uppsjávarsmiðjunnar sem komið verður upp í
fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þarna
má til dæmis sjá úðaþurrkara og himnusíunartæki sem ekki hafa
áður verið notuð við framleiðslu á mjöli og lýsi úr uppsjávarfiski.

Dr. Stefán Þór Eysteinsson hefur haft umsjón með þessum verkefnum fyrir hönd Matís og segir hann eftirfarandi um þann búnað sem stofnunin er að festa kaup á og þær rannsóknir sem framundan eru. „Með tilkomu nýja búnaðarins er verið að leggja áherslu á uppbyggingu svokallaðs lífmassavers eða uppsjávarsmiðju í samstarfi við uppsjávariðnaðinn hér eystra. Með tilkomu uppsjávarsmiðjunnar verður unnt að þróa nýja vinnsluferla og nýjar afurðir úr hliðarstraumum sem myndast við vinnslu á uppsjávarfiski til manneldis. Tækin sem fjárfest hefur verið í nú nýverið eru í fyrsta lagi úðaþurrkari sem mun geta framleitt próteinríkt duft. Í öðru lagi hefur verið keypt tilraunaskilvinda sem fellur vel að verkefni okkar en hún getur aðskilið fitu úr efni sem ætlað er í próteinduft. Þá er einnig um að ræða himnusíunartæki sem mun gera það kleift að skima betur en áður fyrir öðrum lífvirkum efnum. Þessi tæki munu mynda kjarna uppsjávarversins en fleiri tæki munu einnig verða til staðar og þarna verða því gríðarlega mikilir möguleikar til rannsókna fyrir hendi. Tækjabúnaðurinn mun verða notaður í fjölmörg verkefni. Má þar til dæmis nefna verkefnið „Prótein úr hliðarstraumum makríls“ sem er samvinnuverkefni Síldarvinnslunnar, Matís og Fóðurverksmiðjunnar Laxár. Þar munum við nýta uppsjávarsmiðjuna til framleiðslu á próteinríku dufti sem nýta má í fiskeldi eða, ef vel gengur, til manneldis. Í tilraununum í tengslum við fiskimjölsiðnaðinn hefur verið leitast við að framleiða hágæða próteinduft sem nýta mætti til manneldis og einnig hefur verið lögð áhersla á framleiðslu á lýsi með meiri gæðum en það lýsi sem nú er framleitt. Við hjá Matís bindum miklar vonir við uppsjávarsmiðjuna og sjáum hana fyrir okkur sem þróunarsetur sem muni styðja við matvælaframleiðslu á landsbyggðinni. Þá eru bundnar vonir við að rannsóknirnar sem fram munu fara í smiðjunni muni stuðla að aukinni verðmætasköpun.“

Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar segir að sjávarútvegsfyrirtæki taki þátt í margvíslegu þróunar- og nýsköpunarstarfi í samvinnu við Matís, háskóla og ýmis tæknifyrirtæki. Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar fyrir árið 2020 er getið um átta rannsóknaverksefni sem Síldarvinnslan tekur þátt í. „Þessi verkefni miða öll að því að bæta gæði og auka verðmæti. Ég vil til dæmis nefna mjög áhugaverð verkefni sem doktorsnemar hafa verið að vinna hjá okkur í samstarfi við Matís. Við teljum að þessar rannsóknir geti opnað nýjar dyr en hafa verður í huga að tilkoma ferskara hráefnis að landi, betri aflameðhöndlunar og aukinnar vinnslu til manneldis skapar ótrúlega marga nýja möguleika. Við hjá Síldarvinnslunni bindum afar miklar vonir við hina nýju uppsjávarsmiðju Matís hér í Neskaupstað en Matís bindur í rauninni saman allt þróunarstarf í greininni. Staðreyndin er sú að við erum með sjávarútveg í fremstu röð og við erum með öflug tæknifyrirtæki sem hafa stuðlað að mikilli framþróun. Má þar til dæmis nefna Marel, Skagann og Völku sem selja lausnir sínar um allan heim. Við eigum að vera í góðri stöðu til að þróa sjávarútveginn áfram og framtíðin er virkilega spennandi,“ segir Gunnþór.

 

Deila: