Mokafli í kanti vestan við Halann

223
Deila:

,,Við erum vestur í kanti vestan við Halann og hér hefur verið mokafli undanfarna þrjá sólarhringa. Nú er veður tekið að versna og það þarf að hafa fyrir hlutunum. Við erum komnir með um 920 tonna afla í túrnum en við eigum að vera komnir í höfn í Reykjavík nk. mánudag.”

Þetta segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE en skipið fór í veiðiferðina 21. október sl. Afla var millilandað í Reykjavík 4.11 sl. en síðan hefur skipið verið á sjó.

,,Nú erum við á höttunum eftir ufsa og aflinn hér í kantinum hefur verið stórufsi og vottur af ýsu með. Þegar aflabrögðin voru best stjórnaði vinnslugetan alveg ferðinni. Við vorum t.a.m. með rúmlega 70 tonna afla í gær og réðum ekki við meir,” segir Árni en hann segir að þorskurinn virðist halda sig austar en Vigri hafi fengið ágætan þorskafla á Þverálshorni og Strandagrunni á dögunum.

Að sögn Árna er mikið líf á Vestfjarðamiðum. Víða hafi orðið var við loðnu og fiskurinn hafi nóg að éta.

,,Ég er mjög sáttur við árið. Heildaraflinn hjá okkur er að nálgast tíu þúsund tonn. Þetta hefði verið óhugsandi ef ekki kæmi til afburðagóð áhöfn,” segir Árni Gunnólfsson.

Deila: