Náðu trollinu í fimmtu tilraun

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK tapaði í nóvember trolli sínu á Kötluhrygg, suður af landinu og voru gerðar tilraunir í hálfan annan sólarhring til að slæða það upp á ný en trollið var á  tæplega 300 faðma dýpi. Á vef Síldarvinnslunnar segir að að þessar tilraunir hafi endað með því að slæðan gaf sig og þá var brugðið á það ráð að láta smíða öflugri slæðu í Neskaupstað og reyna á nýjan leik. Blængur fór síðan á Kötluhrygg á ný í byrjun vikunnar og aftur var hafist handa með nýju slæðunni. Í viðtali segist Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri ekki hafa verið bjartsýnn í byrjun á árangur.

Verðmætabjörgun og umhverfislegur ávinningur
„Við vissum að trollið var á erfiðum stað á 280 – 290 faðma dýpi og ég taldi að lítil von væri til þess að við næðum því. Engu að síður vildum við reyna okkar ítrasta. Í fyrsta lagi er Síldarvinnslan ábyrgt fyrirtæki á sviði umhverfismála og þess vegna var mikið lagt upp úr því að ná trollinu upp. Í öðru lagi vorum við afar ósáttir með að hafa tapað trollinu en um er að ræða dýrt veiðarfæri. Á mánudaginn vorum við komnir á staðinn í þokkalegu veðri og hófum að reyna að slæða veiðarfærið upp. Í fimmtu tilraun tókst það og það ríkti gleði um borð yfir árangursríku verkefni. Þarna kom veiðarfærið upp með öllum nemum og tilheyrandi búnaði þannig að það borgaði sig svo sannarlega að ná því upp auk hins umhverfislega ávinnings,“ segir Sigurður Hörður.

Deila: