Nóg af kartöflum!!!

Deila:

Við höldum okkur enn fyrir austan í viðtölum við mann vikunar. Nú er hann í Neskaupstað, önnum kafinn við makrílvinnslu. Okkar maður er Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni. Honum er enn minnisstætt þegar hann var snuðaður um jólasteikina um borð í Stapafellinu 1979.

Nafn?

Jón Már Jónsson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur á Akureyri en ólst upp í Neskaupstað og bý þar núna.

Fjölskylduhagir?

Ég er giftur Önnu Þóru Árnadóttur yfirsjúkraþjálfara og eigum við tvö börn strák og stelpu. Einn afastrák og eina afastelpu.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa hjá Síldarvinnslunni og er yfirmaður landvinnslu.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var um 14 ára gamall í sumarvinnu í frystihúsi Síldarvinnslunnar.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er fjölbreytnin og sífelldar áskoranir. Eins hefur verið gaman að taka þátt í hinni miklu uppbyggingu sem hefur átt sé stað innan okkar fyrirtækis undanfarin ár.

En það erfiðasta?

Erfiðast er þegar breytingar og hagræðingar leiða til uppsagna á starfsfólki.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það gæti nú verið ýmislegt, en mér dettur í hug að ég fór í jólatúr 1979 á Stapafellinu. Ég var á vakt á aðfangadag og hlakkaði mikið til að borða jólasteikina. Þegar ég kom upp af vaktinni klukkan átta til að borða, tilkynnti kokkurinn mér að kjötið væri búið, en það væri allt í lagi því hann ætti nóg af kartöflum. Hann skildi ekkert í því að ég skyldi reiðast því.
Það er rétt að taka fram að þetta var afleysingakokkur í fyrsta túr, en ekki sá góði kokkur sem annars var þar um borð.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er erfitt að nefna einhvern einn en á sjómannstíma mínum kynntist ég mörgum mjög eftirminnilegum og skemmtilegum karakterum.

Hver eru áhugamál þín?

Það er að ferðast til nýrra og framandi staða svo hef ég líka gaman af stangveiði.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Jólarjúpan er alltaf ofarlega á listanum og önnur villibráð.

Hvert færir þú í draumfríið?

Draumafríið er það frí sem ég fer í hverju sinni og í ár er það skútusigling á Eyjahafi.

 

 

Deila: