-->

Nótin skemmtilegasta veiðarfærið

Guðlaugur Jónsson, skipstjóri, hætti á sjónum fyrir réttu ári eftir 52 ára feril, en hann hóf sjómennskuna 15 ára gamall. Hann hefur því áratuga reynslu af veiðum á  uppsjávarfiski. Fyrst síld, síðan loðnu og loks kolmunna og makríl. „Það er óhemju af fiski við landið, sem þarf að éta og svo gleyma menn því oft að hvalurinn hefur höggvið mjög stórt skarð í þetta. Hann er að taka meira af loðnunni en veiðarnar. Hér á árum áður þegar maður fór norður eftir til að veiða loðnu var það viðburður ef maður sá hval. Eftir 1980 hefur hvalurinn alltaf fært sig upp á skaftið og fylgt göngunni austur eftir og síðan hringinn í kringum landað. Það er orðið óhemjumikið af hnúfubak hér við landið og hann er friðaður,“ segir Guðlaugur um stöðuna á loðnustofninum nú.

Byrjaði á Ásbergi

Við förum svo yfir ferilinn í stuttu máli: „Ég byrjaði fyrst á síld 1967 en var byrjaður að fara eitthvað um borð í báta áður. Þá var ég munstraður á Ásberg RE, 15 ára gamall. Manni var tekið vel, góður mannskapur og manni kenndir hlutirnir, hvernig átti að gera þá. Þetta var nýr bátur, kom um veturinn og bróðir minn var þarna skipstjóri. Þetta var fínn bátur og ég var þarna um sumarið. Ég fór svo í skóla um veturinn og fór svo um borð árið eftir.  Ég fór svo í stýrimannaskólann 1970 og kláraði farmanninn 1973. Ég hafði prufað farmennskuna sumrin 1969 og 1970 hjá Eimskip. Ég sá þó ekki framtíðina fyrir mér í fragtsiglingum.

Fór með Helgu II í Norðursjóinn

Þegar ég kom út úr Stýrimannaskólanum voru 1973 fer ég sem fyrsti stýrimaður á Helgu II RE á síld í Norðursjónum. Ég leysi svo af þar 1974 í fyrsta sinn sem skipstjóri. 1975 fer ég svo yfir á Ásberg aftur og er þá stýrimaður og afleysingarskipstjóri. Þar er ég til 19787, þegar það skip er selt til Noregs. Þá fór ég sem stýrimaður á Narfa, sem þá var verið að breyta í nótaskip eina vertíð, en svo tek ég við Dagfara vorið 1978 . Þetta voru nóta- og vertíðarbátar allir en á Dagfara fórum við líka á fiskitroll á sumrin.  Ég var með Dagfara þar til 1984, en tek þá við gamla Jóni Finnssyni um vorið. Hann var svo seldur um næstu áramót en Gísli útgerðarmaður var þá að kaupa nýjan bát. Þá var ég með Þórshamar á loðnu og svo Eldborgu á rækju á sumrin og var að leysa af á ýmsum bátum meðan ég var að bíða eftir nýjum Jóni Finnssyni. Hann kom svo 1987 og ég tók þá við honum. Það var ágætis bátur, góður nótabátur. Ég var svo með hann til 1993.. Þá hætti ég þar og réð mig hjá Miðnesi og var með Keflvíking. Á sama tíma var ég orðinn formaður skipstjórafélagsins Öldunnar í Reykjavík, tók við því 1993. Ég var svo með Keflvíking 1996, en þá var Elliði keyptur og ég tók við honum. Tveimur árum seinna sameinaðist Miðnes HB á Akranesi. Var svo með Óla í Sandgerði í tvö ár og síðan tók ég við Ingunni ásamt Marteini Einarssyni. Hún kom 2001 og var smíðuð í Síle. 2015 tek ég svo við Venus, sem var nýsmíði frá Tyrklandi. Svo hætti ég bara fyrir ári síðan eftir 52 ár á sjó. Mér fannst alveg komið nóg af því,“ segir Guðlaugur.

Á nærri 50 loðnuvertíðum

Guðlaugur segir að sér hafi fundist nótin skemmtilegasta veiðarfærið, en trollið svona allt í lagi. Það var eitthvað við nótina sem heillaði hann. Hann fór fyrst á loðnu veturinn 1970 sem háseti og hefur því verið á loðnuvertíðum í nærri 50 ár, nema þegar hann var í skólanum en engin loðna hefur verið veidd nú í tvö ár. Hann segir að loðnan sé sérstakur fiskur og engin vertíð sé eins. Þetta sé fiskur sem lifir stutt og erfitt að fylgjast með honum. Svo hafi orðið mikil breyting síðustu 10 árin við landið, Göngumynstur loðnunnar hafi verið að gjörbreytast síðustu árin. Nú sé mikill hluti að henni farinn að hrygna fyrir norðan og hrygningin hafi dreifst miklu meira en áður var. Hér áður fyrr hafi verið hægt að ganga að loðnunni sem vísu. Í byrjun febrúar væri hún að koma upp á grunn og hafi farið rólega vestur með landinu. Á síðari árum hafi hún farið mjög hratt með landinu og vestur fyrir. Þá hafi verið orðið svolítið erfitt að fylgja henni eftir. Hann telur ekki að veiðar á loðnu í troll hafi haft áhrif á göngu loðnunnar. Á þeim tíma hafi ekki náðst að veiða neitt nema með trolli. Þess vegna hafi menn verið að nota trollið. Það sé líka það að vinnslan hafi viljað frá loðnu reglulega til vinnslu svo hægt væri að halda samfelldri vinnslu. Veiðar á loðnu í nót hafi ekki verið jafn stöðugar og í trollið. Veðrið hafi oft hamlað nótaveiðunum en í slæmu veðrið hafi verið hægt að vera með troll, svo það hafi verið hvati til að fara með trollið í loðnuna.

Guðlaugur gengur í land af Venusi í síðasta sinn.

Veiddi makríl í nót við Færeyjar

Guðlaugur er einn þeirra sem byrjuðu á makríl hér við land. „Fyrsta skipti sem ég fór á makrílveiðar sem skipstjóri var 1998, þegar ég fór með Elliða að veiða makríl í færeyskri lögsögu. Það var smá kvóti sem var þar. Þá veiddum við í nót og sigldum með aflann til Noregs. Það var reyndar ekki mikið magn. Þetta svo smá augu sem við vorum að kasta ár. Svo kemur hann hingað eins og guðsgjöf, mikið með síld fyrstu árin. Síðan þróaðist þetta og við fórum að geta skilið þar á milli og við gátum nýtt þetta betur með breyttum veiðarfærum. Maður tók töluverðan þátt í því með Hampiðjunni að þróa makríl- og kolmunnatroll, sem var mjög áhugverð og svolítið skemmtileg vinna.  Makríllinn kemur hingað í ætisleit og vonandi verða aðstæður hér þannig að hann haldi áfram að koma. Það eina sem kannski hefur verið gert vitlaust í þessum makrílveiðum og stjórnun þeirra að við höfum ekki getað náð samningum  um skiptingu veiðanna. Það er bölvanlegt, því þá getum við ekki sótt hann eins víða og ella. Við fáum ekki aðgang að lögsögu Noregs og Evrópusambandsins til dæmis. Það er mjög mjög slæmt að höfum ekki samninga um fasta hlutdeild.

Það er gaman að veiða makríl og síld, það er svolítið sérstakt, en það eina við þetta var að maður vara að veiða í troll. Það hefði verið skemmtilegra að veiða þetta í nót. Mér fannst það meira spennandi. Það hefur komið mikið af norsk- íslenskri síld upp að landinu fyrir austan á hverju ári. Það er munstur sem er að taka sig upp frá því sem var hér áður fyrr. Það er síld að ganga vestur með Norðurlandinu alveg að Vestfjörðum og mikið af henni,“ segir Guðlaugur.

Yfir  50.000 tonn á ári

Nú er staðan þannig að uppsjávarveiðiskip eru tiltölulega fá, en mjög öflug og eru með verkefni allt árið um kring ef allt er í lagi. Þá er það loðna eftir áramót, svo kolmunni, síðan makríll og síld og svo kolmunni aftur framundir áramót. „Það hefur verið alveg nóg að gera síðustu árin og vonandi verður svo áfram.  Við höfum verið að fiska yfir 50.000 tonn á ári, enda kvótastaðan góð. Það hefði þótt gott á árum áður, en þá voru auðvitað menn ekki með sömu góðu græjurnar og nú. Það er ekki samanburðarhæft.“

Guðlaugur vill lítið tjá sig um fiskveiðistjórnunina. Hann segir að þar sé margt gott, en einnig sitthvað sem betur megi fara. Ekkert sé fullkomið, en kvótakerfið sé nauðsynlegt til að gera mönnum kleift að stýra veiðunum sem best og fá sem mest út úr aflanum. „Þetta er mjög auðvelt fyrir þá sem eru með góðan kvóta, en það er mjög erfitt að komast inn í veiðarnar. Það hefur enginn efni á því.“

Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem gefið er út af Ritformi. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land en það má einnig nálgast á heimasíðu útgáfunnar ritform.is

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Segir „alveg á hreinu“ að gögnin...

Fyrrverandi formaður Sjómannasambandsins segir í samtali á visir.is ómerkilegt hvernig Samherji ræðst að fréttamanni Ríkisútvarps...

thumbnail
hover

Nýdoktor á sviði flotahegðunar og hagfræði...

Staða nýdoktors er auglýst hjá Hafrannsóknastofnun, við starfstöð stofnunarinnar í Hafnarfirði. Nýdoktornum er ætlað að starfa...

thumbnail
hover

TF-SIF stuðlar að handtöku hasssmyglara

Spænska lögreglan, Guardia Civil, í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands handtók fjóra smyglara og gerði 963 kíló af hassi upptæ...