Nú eru það Austfjarðamið hjá Eyjunum

87
Deila:

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, eru nú að veiðum á Austfjarðamiðum. Vestmannaey landaði á Eskifirði á laugardagskvöld og Bergey landaði í Neskaupstað í gærkvöldi. Heimasíða  Síldarvinnslunnar hafði samband við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og spurði frétta.

Egill Guðni sagði að það væri notalegt að koma til löndunar á Eskifirði. „Við lönduðum í mínum gamla heimabæ. Við höfðum einungis verið um tvo daga að veiðum en þá þurfti einn úr áhöfninni á læknisaðstoð að halda og því var farið í land. Við lönduðum um 40 tonnum af blönduðum afla sem fékkst í Berufjarðarálnum. Að lokinni löndun fórum við strax út og héldum norður á Glettinganes. Þar stoppuðum við í sólarhring og erum komnir aftur suður í Berufjarðarál. Það er í augnablikinu heldur rólegt hjá okkur en það hlýtur að lagast. Ég held að áformað sé að landa fyrir austan á fimmtudag eða föstudag,“ segir Egill Guðni.

Jón Valgeirsson sagði að Bergey hefði landað hátt í 70 tonnum í Neskaupstað í gærkvöldi. „ Við fengum aflann í Berufjarðarálnum og á Breiðdalsgrunni Þetta var blandaður afli en fínasti fiskur. Þá var veðrið alveg frábært, sannkölluð bongóblíða. Að lokinni löndun reyndum við fyrir okkur í Seyðisfjarðardýpinu en þar var heldur tregt. Við erum því aftur komnir í Berufjarðarálinn og hér er þokkalegt kropp. Það stendur til að landa hér fyrir austan á fimmtudag,“ segir Jón.

Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: