-->

Ný vinnslulína Brims fyrir bolfisk komin í gang

Ný og afar fullkomin vinnslulína fyrir bolfisk, þorsk, ýsu og ufsa hefur að undanförnu verið prufukeyrð í fiskvinnslu Brims á Norðurgarði. Með henni er sjálfvirkni aukin og erfiðum og einhæfum störfum fækkað. Fjárfestin vegna línunnar er mikil en hún bætir meðferð hráefnis og eykur gæði afurðanna. Afköst verða á bilinu 60 til 80 tonn á dag.

„Við erum ekki komin í fullan gang. Við byrjuðum að prufukeyra í lok júlí og erum því búnir að vera að keyra í um mánuð og gengur bara fínt. Auðvitað erum við enn að fínpússa vinnslulínuna og er það allt á áætlun,“ segir Gísli Kristjánsson, framleiðslustjóri Brims í Reykjavík.

Róbótar sjá um innmötun og pökkun

Fiskurinn er í upphafi tekinn úr hráefnisgeymslu þar sem róbóti sér um að sturta úr körunum inn á hráefnisflokkara og þaðan fer fiskurinn beint inn á bolfiskvélarnar í hausun og flökun. Síðan taka þrjár vinnslulínur við þar sem er snyrting og vatnsskurður og frá honum fara bitarnir mismunandi leiðir, annars vegar inn á ferskfiskpökkun og hinsvegar inn á lausfrysta. Loks taka við pökkunarlínur þar sem róbótar raða ferskum fiskbitunum í kassa og eftir tékkvog er þeim lokað. Svo taka aðrir róbótar við og stafla kössunum á bretti. Lausfrysti fiskurinn fer svo í aðra pökkunar stöð. Þar fyrir utan er framleidd blokk og marningur sem fer eins og áður í plötufrysta.

Sérstök vinnslulína er svo fyrir karfa og byggist hún á sömu grunnatriðum og bolfisklínan, sem tekur þá þorsk, ýsu og ufsa.

Nýja vinnslulínan byggist á búnaði frá Marel, innmötunarróbóti er frá Samey, bolfiskvélar frá Curio, lausfrystar frá JPT í Svíþjóð og pökkunarróbótar frá Plastco. Heildar kostnaður er hátt í þrjá milljarða króna, en inni í því eru jafnframt miklar endurbætur á húsakosti.

Einhæfum og erfiðum störfum fækkað

Róbóti tæmir fiskikör í móttökunni inn á hausun og flökun.

„Það sem við erum að gera með þessari miklu fjárfestingu að bæta meðferð hráefnisins og gæði afurðanna. Þó sjálfvirkni sé aukin, meðal annars með róbótum sjáum við ekki fyrir okkur að vera að fækka starfsfólki eitthvað. Störfin breytast með þessu, erfiðum eða einhæfum störfum fækkar og vinnuaðstaða öll betri. Þetta gefur einnig tækifæri til betri nýtingar á flökum og betri framleiðslustýringar,“ segir Gísli.

Allur fiskur sem tekinn er til vinnslu af togurum Brims fer í gegnum vinnsluna á Norðurgarði, en í Hafnarfirði vinnur dótturfyrirtæki Brims, Kambur, fisk af sínum bátum.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Síldarvinnslan framúrskarandi enn og aftur

Creditinfo hefur nú tilkynnt hvaða fyrirtæki á Íslandi töldust framúrskarandi á rekstrarárinu 2019 samkvæmt þeim viðmiðum sem s...

thumbnail
hover

Vonar að lærdómur verði dreginn af...

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra furðar sig á þeim viðbrögðum sem viðhöfð voru um borð í frystitogaranum Júl...

thumbnail
hover

Rólegt á kolmunnanum

Venus NS og Víkingur AK voru í lok síðustu viku á Vopnafirði með um 2.100 tonn af kolmunna. Þetta er afrakstur fyrstu veiðiferðar ...