Nýr Baldvin Njálsson að koma til landsins

320
Deila:

Hinn nýi frystitogari Nesfisks er væntanlegur til landsins um hádegisbilið í dag. Hugsanlega kemur hann við í Keflavík á leið sinni til Hafnarfjarðar. Þar verður lokið við að setja niður vinnslubúnað. Skipstjóri á skipinu er Arnar Erling Óskarsson.

Baldvin Njálsson GK er rúmlega 66 metra langur og leysir af hólmi eldra skip með sama nafni sem hefur verið selt. Nýja skipið er fimmtán metrar á breidd og með 3.000 kW Wärtsilä aðalvél. Skrúfan verður fimm metrar í ummál og verður nýr Baldvin Njálsson GK í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.

Um borð í skipinu verða flök og hausar fryst. Í því verður vöruhótel með þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum tilbúnum til löndunar og útflutnings. Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.

Deila: