Nýr Börkur smíðaður hjá Karstensens

Deila:

Skipasmíðastöð Karstensens er rótgróið fyrirtæki í Skagen í Danmörku. Fyrirtækið var stofnað árið 1917 í þeim tilgangi að smíða fiskibáta úr tré og sinna viðhaldi slíkra báta. Fyrirtækið hefur tekið ýmsum breytingum og er nú stærsta fyrirtækið í Skagen með um 500 starfsmenn þar. Árið 1960 afhenti Skipasmíðastöð Karstensens fyrsta stálbátinn sem það smíðaði og frá þeim tíma hefur stálskipasmíði og viðhald stálskipa sífellt skipað hærri sess í starfseminni.

 

Knud Degn Karstensen framkvæmdastjóri.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Knud Degn Karstensen hefur verið framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Karstensens frá árinu 1987 og hefur uppbygging fyrirtækisins verið hröð undir hans stjórn. Knud er skipaverkfræðingur og hóf að starfa hjá fyrirtækinu árið 1975 og var hlutverk hans í upphafi að þróa fyrirtækið frá tréskipasmíðinni yfir í smíði á skipum úr stáli. Undir stjórn Knuds hefur fyrirtækið vaxið hratt á síðustu árum og eru starfsmenn þess yfir 1.000 talsins. Eins og fyrr segir starfa um 500 hjá fyrirtækinu í Skagen, um 500 starfa hjá pólskri deild fyrirtækisins í Gdynia og um 20 starfa í Nuuk í Grænlandi þar sem Karstensens rekur slipp. Það eru miklar annir hjá framkvæmdastjóranum í umsvifamiklu fyrirtæki en hann nýtur stuðnings eiginkonu sinnar, Marínar Magnúsdóttur, sem er íslensk.

Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar hitti Knud Degn Karstensen að máli í Skagen á dögunum og bað hann um að lýsa starfsemi hins umsvifamikla fyrirtækis í stuttu máli. „ Í Nuuk rekur fyrirtækið slipp þar sem viðhaldsverkefnum er sinnt, en slippurinn hefur verið rekinn af okkur frá árinu 2002 og að öllu leyti í eigu fyrirtækisins frá 2004. Í Gdynia í Póllandi kom fyrirtækið upp starfsstöð í fyrra og þar eru skrokkar skipa smíðaðir. Nú er þar unnið að smíði fjögurra skipsskrokka. Þegar skrokkarnir eru fullgerðir eru þeir dregnir til Skagen þar sem skipin eru kláruð. Í Skagen er einnig fjölbreyttum viðhaldsverkefnum sinnt og þar rekur fyrirtækið slipp og flotkví. Það hefur gengið á ýmsu í skipasmíðaiðnaðinum á undanförnum áratugum. Til dæmis upplifðu menn mikla lægð á níunda áratugnum og þá lognuðust margar stöðvar útaf. Á þeim tíma sinntum við verkefnum frá þriðja heiminum og lifðum af. Árið 1997 var síðan byrjað að smíða fiskiskip á ný og þessu erfiðleikaskeiði lauk. Fyrir utan fiskiskipin höfum við smíðað margs konar skip og breytt skipum. Til dæmis umbyggðum við skip fyrir þremur árum sem var sérstaklega útbúið til að flytja lifandi nautgripi. Frá árinu 2007 hefur Skipasmíðastöð Karstensens afhent 43 nýsmíðuð skip. Þar er um að ræða 37 fiskiskip, 3 herskip og eitt rannsóknaskip. Flest fiskiskipanna hafa verið smíðuð fyrir dönsk, sænsk, skosk og írsk útgerðarfyrirtæki en einungis eitt slíkt skip hefur verið smíðað fyrir íslenskt fyrirtæki. Það er Þórunn Sveinsdóttir VE og reyndar er núna nýbúið að lengja Þórunni hér hjá okkur. Við hjá Skipasmíðastöð Karstensens höfum afhent 5-6 nýsmíðuð skip hvert ár á seinni tímum og sinnt viðhaldi og breytingum á 150-180 skipum. Það má því segja að umsvifin séu mikil.“

Svona mun nýr Börkur líta út.

Knud segir að hann hafi lengi haft áhuga á að smíða fleiri skip fyrir íslensk fyrirtæki og nú sé að rætast úr því. „Hjá okkur hafa verið pöntuð 15 fiskiskip sem ekki hafa verið afhent ennþá. Af þeim verða fjögur afhent á þessu ári, tíu á næsta ári og eitt á árinu 2021. Tvö af þessum skipum eru smíðuð fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki og er í báðum tilvikum um uppsjávarskip að ræða. Þetta er Vilhelm Þorsteinsson sem smíðaður er fyrir Samherja og á að afhendast í júní á næsta ári og Börkur sem smíðaður er fyrir Síldarvinnsluna og á að afhendast í desember á næsta ári. Þegar er byrjað að smíða skrokk Vilhelms í starfsstöð fyrirtækisins í Póllandi og innan tíðar verður byrjað að skera niður efnið í skrokk Barkar. Þessi skip eru systurskip og verða hin glæsilegustu. Ég er afskaplega ánægður með að fá tækifæri til að þjóna Íslendingum og öll samskiptin við íslensku fyrirtækin hafa gengið eins og best verður á kosið,“ segir Knud.

Að mati Knuds er framtíðin björt hjá Skipasmíðastöð Karstensens og enginn skortur á verkefnum til framtíðar litið. Ráðgert er að halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins og til dæmis er áformað að byggja yfirbyggða stóra flotkví í Skagen. „Næstu ár líta afar vel út og fyrirtækið er að fá góð verkefni. Það er ekki annað hægt en að vera þakklátur og bjartsýnn þegar nægum spennandi verkefnum er að sinna,“ segir Knud Degn Karstensen.

 

Deila: