Nýr sjóðari eykur afköstin í mjölverksmiðju VSV

Deila:

Bræðsla kolmunna hófst í fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar í Vestmanneyjum síðasta sunnudag og þar hefur verið tekið við 6.600 tonna afla á fjórum sólarhringum. Þrjú skip hafa landað kolmunna til bræðslu, þ.e. færeyska uppsjávarskipið Tróndur í Gøtu sem kom með 2.100 tonna farm og uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar, Gullberg og Huginn, sem lönduðu samtals 4.500 tonnum. Öll eru skipin farin á ný til veiða, að því er segir í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar. Þar segir einnig að því hafi fylgt óvenju mikil spenna og eftirvænting að hefja bræðslu að þessu sinni því þetta var fyrsta keyrsla á nýjum sjóðara sem settur var upp í verksmiðjunni í fyrr í vetur ásamt tilheyrandi tæknibúnaði.
„Við gerðum ráð fyrir því að ræsa verksmiðjuna eftir helgina þegar Gullberg og Huginn hefðu landað en á laugardaginn boðaði Tróndur í Gøtu óvænt komu sína til okkar og einungis klukkutíma síðar var byrjað að landa úr skipinu,“ segir Unnar Hólm Ólafsson, verksmiðjustjóri, í viðtali á heimasíðunni.

Nýi sjóðarinn í fiskimjölsverksmiðju VSV

Vinnslan gengur vonum framar
„Aflinn frá Færeyingum varð því til þess að við fórum að bræða strax á sunnudaginn og verður að segjast að vinnslan gengur vonum framar. Auðvitað þarf alltaf að stilla og fínstilla ný tæki í gangverkinu en það er bara eðli máls samkvæmt.
Þetta lítur afar vel út eins og til var stofnað. Nýju tækin auka afkastagetu, spara orku og styrkja rekstraröryggi verksmiðjunnar stórlega.
Aðstæður með tilliti til orkusparnaðar eru reyndar ekki sem skyldi nú um stundir. Raforkumiðlun til fiskimjölsverksmiðja landsmanna er verulega skert, þar á meðal til okkar. Við verðum því að brenna mun meira af olíu en ella væri. Þetta gerist hjá þjóð sem stærir sig af grænni orku!“

Söguleg rúsína í pylsuenda
Í tilefni af því að hið nafntogaða uppsjávarskip Færeyinga, Tróndur í Gøtu, kom með fyrsta kolmunnafarm ársins til bræðslu hjá VSV er í lok fréttarinnar eftirfarandi fróðleiksmoli um nafnið:
„Tróndur í Gøtu upp á færeysku heitir að sjálfsögðu Þrándur í Götu í Færeyingasögu. Þar er fjallað um viðleitni Sigmundar Brestissonar til að kristna Færeyinga og gera þá skattþegna Noregskonungs á árunum 990-1002. Þrándur í Götu var andvígur hvoru tveggja.
Þetta var með öðrum orðum um svipað leyti og annar heiðingi, Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lagðist undir feld á Þingvöllum, lá þar næturlangt og úrskurðaði að morgni að Íslendingar skyldu kristnir vera en fá samt að blóta í laumi.
Þrándur hefði betur brugðist sér undir feld líka – ekki með Þorgeiri á Þingvöllum heldur einn og sjálfur í Færeyjum.“

Meðfylgjandi mynd er af mjölsekkjum sem nú hlaðast upp í fiskimjölsverksmiðju VSV.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: