Nýr vigtunarbúnaður í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

99
Deila:

Nú er unnið að uppsetningu nýs vigtunarbúnaðar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Nýi búnaðurinn vigtar afla uppsjávarskipanna strax og hann kemur á land, áður en hann fer inn á flokkara. Aðferðafræðin við vigtunina er sambærileg því sem tíðkast víða erlendis, til dæmis í Noregi, Danmörku og Færeyjum. Búnaðurinn er framleiddur af Marel og danska fyrirtækinu Hillerslev en hér er um að ræða fjárfestingu upp á um 100 milljónir króna. Uppsetning búnaðarins er langt komin en hann verður tilbúinn til notkunar þegar makrílvertíð hefst um mánaðamótin júní-júlí.

Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni, segir að hér sé um allmikinn búnað að ræða.  „Með tilkomu þessa nýja vigtunarbúnaður verður fiskiðjuverið eina uppsjávarvinnslan á landinu sem vigtar allan afla áður en vinnsluferill hefst, en flestar vinnslur byggja á afurðavigtun. Búnaðurinn er mjög vandaður og höfum við fulla trú á að hann muni virka vel. Með tilkomu þessa nýja búnaðar er unnt að dæla fisknum í land með meiri sjó en ella og það minnkar álagið á fiskinum í dælingunni og fer því betur með hann. Búnaðurinn mun því leiða af sér aukin framleiðslugæði,“ segir Jón Már í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Nýi vigtunarbúnaðurinn ásamt skiljubúnaði fyrir sjó. Færibandið fremst á myndinni er til að taka prufur svo unnt sé að sjá aflasamsetningu. Ljósm. Smári Geirsson

 

Deila: