-->

Nýtt fóður fyrir náttúrulegt eldi

Fóðurverksmiðjan Laxá hf. hefur hafið framleiðslu á nýrri fóðurlínu fyrir fiskeldi, ECO, sem kemur í stað LF og VK fóðurlína sem notaðar hafa verið undanfarna áratugi. Helsta breyting er sú að nú inniheldur allt fóður frá Laxá náttúrulegt litarefni að nafni Panaferd og er það gert til að fiskeldisiðnaðurinn á Íslandi eigi möguleika á vottun sem náttúrulegt fiskeldi.

Önnur breyting er lækkun á prótein kröfum frá eldri uppskriftum, en þrátt fyrir það er próteinmagn og hlutfall próteina úr fiskimjöli hærra en gengur og gerist í fiskeldisfóðri í nágrannalöndum. Lækkun á próteinum í bleikjufóðri byggir á fóðurrannsóknum hjá MATIS og Laxá undanfarin ár og er breyting gerð í samráði við helstu viðskiptavini Laxár sem stunda bleikjueldi. Lækkun á próteinum í laxafóðri byggir á aðlögun að þeirri þróun sem hefur orðið í laxafóðri erlendis og þrátt fyrir hóflega lækkun er Laxár fóður fyrir laxfisk mjög próteinríkt. „Breytingar á hráefnum eru helstar að nú er notuð 25% blanda af repjuolíu á móti hreinu lýsi og er hófleg breyting gerð til að lækka kostnað, en erlendis tíðkast allt að 50-70% íblöndun. Rækjumjöl framleitt innanlands er einnig nýtt hráefni í notkun, en það er steinefnaríkt hráefni og ódýrt prótein sem talið er vera listaukandi fyrir eldisfisk auk þess sem það styrkir litaupptöku.
Nafn á fóðri hefur verið svolítið á reiki síðastliðnar vikur, en eftir mikla yfirlegu var ákveðið að nota ECO nafnið fyrir fituríkt laxafóður og ECO-LF fyrir lágfitu bleikju- og silungafóður. Sú breyting verður einnig að 4.0 mm pillur flokkast nú sem seiðafóður og verður samskonar uppskrift fyrir lax og bleikju, enda voru flestir bleikju framleiðendur að nota fituríkt fóður í 4.0 mm,“ segir í upplýsingum um nýju fóðurlínuna frá Laxá.